2. Frá Rera og Völsungi syni hans
Nú gerist Sigi gamall maður að aldri. Hann átti sér marga öfundarmenn svo að um síðir réðu þeir á hendur honum er hann trúði best en það voru bræður konu hans. Þeir gera þá til hans er hann varir síst og hann var fáliður fyrir og bera hann ofurliði. Og á þeim fundi féll Sigi með hirð sinni allri.
Son hans Rerir var ekki í þeim háska og fær hann sér mikið lið af vinum sínum og landshöfðingjum svo að hann eignaðist bæði land og konungdóm eftir Siga föður sinn. Og nú er hann þykist hafa fótum undir komist í ríki sínu þá minnist hann á þær sakir er hann átti við móðurbræður sína er drepið höfðu föður hans. Og safnar konungur sér nú liði miklu og fer nú á hendur frændum sínum með þenna her og þykja þeir fyrr gert hafa sakar við sig þó að hann mæti lítils frændsemi þeirra. Og svo gerir hann, fyrir því að eigi skilst hann fyrri við en hann hafði drepið alla föðurbana sína, þó að óskaplega væri fy rir alls sakir. Nú eignast hann lönd og ríki og fé. Gerist hann nú meiri fyrir sér en faðir hans.
Rerir fékk sér nú herfang mikið og konu þá er honum þótti við sitt hæfi og eru þau mjög lengi ásamt og eiga þau engan erfingja og ekki barn. Það hugnar þeim báðum illa og biðja þau goðin með miklum áhuga að þau gæti sér barn.
Það er nú sagt að Frigg heyrir bæn þeirra og segir Óðni hvers þau biðja. Hann verður eigi örþrifaráða og tekur óskmey sína, dóttur Hrímnis jötuns, og fær í hönd henni eitt epli og biður hana færa konungi. Hún tók við eplinu og brá á sig krákuham og flýgur til þess er hún kemur þar sem konungurinn er og sat á haugi. Hún lét falla eplið í kné konunginum. Hann tók það epli og þóttist vita hverju gegna mundi. Gengur nú heim af hauginum og til sinna manna og kom á fund drottningar og etur það epli sumt.
Það er nú að segja að drottning finnur það brátt að hún mundi vera með barni, og fer þessu fram langar stundir að hún má eigi ala barnið.
Þá kemur að því að Rerir skal fara í leiðangur, sem siðvenja er til konunga, að friða land sitt. Í þessi ferð varð það til tíðinda að Rerir tók sótt og því næst bana og ætlaði að sækja heim Óðin og þótti það mörgum fýsilegt í þann tíma.
Nú fer hinu sama fram um vanheilsu drottningar að hún fær eigi alið barnið og þessu fer fram sex vetur að hún hefir þessa sótt. Nú finnur hún það að hún mun eigi lengi lifa og bað nú að hana skyldi særa til barnsins og svo var gert sem hún bað. Það var sveinbarn og sá sveinn var mikill vexti þá er hann kom til sem von var að. Svo er sagt að sjá sveinn kyssti móður sína áður hún dæi.
Þessum er nú nafn gefið og er kallaður Völsungur. Hann var konungur yfir Húnalandi eftir föður sinn. Hann var snemma mikill og sterkur og áræðisfullur um það er mannraun þótti í og karlmennska. Hann gerist hinn mesti hermaður og sigursæll í orrustum þeim sem hann átti í herförum.
Nú þá er hann var alroskinn að aldri þá sendir Hrímnir honum Hljóð dóttur sína, er fyrr er getið þá er hún fór með eplið til Reris föður Völsungs. Nú gengur hann að eiga hana og eru þau lengi ásamt og eru góðar samfarar þeirra. Þau áttu tíu sonu og eina dóttur. Hinn elsti son þeirra hét Sigmundur en Signý dóttir. Þau voru tvíburar og voru þau fremst og vænst um alla hluti barna Völsungs konungs, og voru þó allir miklir fyrir sér sem lengi hefir uppi verið haft og að ágætum gert verið, hversu Völsungar hafa verið ofurkappsmenn miklir og hafa verið fyrir flestum mönnum sem getið er í fornsögum, bæði um fróðleik og íþróttir og allsháttar kappgirni.
Svo er sagt að Völsungur konungur lét gera höll eina ágæta og með þeim hætti að ein eik mikil stóð í höllinni og limar trésins með fögrum blómum stóðu út um ræfur hallarinnar en leggurinn stóð niður í höllina og kölluðu þeir það barnstokk.
3. Siggeir fékk Signýjar Völsungsdóttur
Siggeir hefir konungur heitið. Hann réð fyrir Gautlandi. Hann var ríkur konungur og fjölmennur. Hann fór á fund Völsungs konungs og bað hann Signýjar til handa sér. Þessu tali tekur konungur vel og svo synir hans en hún sjálf var þessa ófús, biður þó föður sinn ráða sem öðru því sem til hennar tæki. En konunginum sýndist það ráð að gifta hana og var hún föstnuð Siggeiri konungi.
En þá er sjá veisla og ráðahagur skal takast, skal Siggeir konungur sækja veisluna til Völsungs konungs. Konungur bjóst við veislunni eftir hinum bestum föngum. Og þá er þessi veisla var albúin, komu þar boðsmenn Völsungs konungs og svo Siggeirs konungs að nefndum degi og hefir Siggeir konungur marga virðulega menn með sér. Svo er sagt að þar voru miklir eldar gerðir eftir endilangri höllinni, en nú stendur sjá hinn mikli apaldur í miðri höllinni sem fyrr var nefndur.
Nú er þess við getið að þá er menn sátu við eldana um kveldið að maður einn gekk inn í höllina. Sá maður er mönnum ókunnur að sýn. Sjá maður hefir þessháttar búning að hann hefir heklu flekkótta yfir sér. Sá maður var berfættur og hafði knýtt línbrókum að beini. Sá maður hafði sverð í hendi, og gengur að barnstokkinum, og hött síðan á höfði. Hann var hár mjög og eldilegur og einsýnn. Hann bregður sverðinu og stingur því í stokkinn svo að sverðið sökkur að hjöltum upp. Öllum mönnum féllust kveðjur við þenna mann.
Þá tekur hann til orða og mælti: "Sá er þessu sverði bregður úr stokkinum, þá skal sá það þiggja að mér að gjöf og skal hann það sjálfur sanna að aldrei bar hann betra sverð sér í hendi en þetta er."
Eftir þetta gengur sjá hinn gamli maður út úr höllinni og veit engi hver hann er eða hvert hann gengur.
Nú standa þeir upp og metast ekki við að taka sverðið. Þykist sá best hafa er fyrst nái. Síðan gengu til hinir göfgustu menn fyrst en þá hver að öðrum. Engi kemur sá til er nái því að engan veg bifast er þeir taka til. Nú kom til Sigmundur, son Völsungs konungs, og tók og brá sverðinu úr stokkinum og var sem laust lægi fyrir honum. Þetta vopn sýndist öllum svo gott að engi þóttist séð hafa jafngott sverð, og býður Siggeir honum að vega þrjú jafnvægi gulls.
Sigmundur segir: "Þú máttir taka þetta sverð eigi síður en eg þar sem það stóð ef þér semdi að bera, en nú færð þú það aldrei er það kom áður í mína hönd þótt þú bjóðir við allt það gull er þú átt."
Siggeir konungur reiddist við þessi orð og þótti sér háðulega svarað vera. En fyrir því að honum var svo farið að hann var undirhyggjumaður mikill þá lætur hann nú sem hann hirði ekki um þetta mál, en það sama kveld hugði hann laun fyrir þetta, þau er síðar komu fram.
4. Siggeir bauð heim Völsungi konungi
Nú er það að segja að Siggeir gengur í rekkju hjá Signýju þenna aftan. Hinn næsta dag eftir þá var veður gott. Þá segir Siggeir konungur að hann vill heim fara og bíða eigi þess er vindur yxi eða sjá gerir ófæran. Ekki er þess getið að Völsungur konungur letti hann eða synir hans, allra helst er hann sá að hann vildi ekki annað en fara frá veislunni.
Nú mælti Signý við föður sinn: "Eigi vildi eg á brott fara með Siggeiri og eigi gerir hugur minn hlæja við honum. Og veit eg af framvísi minni og af kynfylgju vorri að af þessu ráði stendur oss mikill ófagnaður ef eigi er skjótt brugðið þessum ráðahag."
"Eigi skaltu þetta mæla dóttir," sagði hann, "því að það er skömm mikil bæði honum og svo oss að brigða þessu við hann að saklausu og eigum vér þá engan trúnað undir honum né vingan ef þessu er brugðið og mun hann gjalda illu oss slíkt er hann má, og samir það eina að halda af vorri hendi."
Nú býst Siggeir konungur til heimferðar. Og áður þeir fóru frá boðinu þá bauð hann Völsungi konungi, mági sínum, til sín á Gautland, og sonum hans öllum með honum, á þriggja mánaða fresti og því öllu liði sem hann vildi með sér hafa og honum væri til vegsemdar. Vill nú Siggeir konungur gjalda í því, það er á skorti brúðlaupsgjörðina fyrir þess sakir er hann vildi eigi meir vera en eina nótt, og er ekki það siður manna að gera svo. Nú heitir Völsungur konungur ferðinni og koma á nefndum degi. Þá skiljast þeir mágar og fer Siggeir konungur heim með konu sína.
5. Frá svikum Siggeirs konungs
Nú er að segja frá Völsungi konungi og sonum hans, að þeir fara að ákveðinni stundu til Gautlands að boði Siggeirs konungs, mágs síns, og hafa þrjú skip úr landi og öll vel skipuð og verða vel reiðfara og koma skipum sínum við Gautland, en það var síð um aftan.
En þann sama aftan kom Signý, dóttir Völsungs konungs, og kallar föður sinn á einmæli og bræður sína. Segir nú ætlan Siggeirs konungs að hann hefir dregið saman óvígan her "og ætlar að svíkja yður. Nú bið eg yður," segir hún, "að þér farið þegar aftur í yðart ríki og fáið yður lið sem mest og farið hingað síðan og hefnið yðar sjálfir og gangið eigi í ófæru, því að eigi missið þér svika af honum ef eigi takið þér þetta bragð sem eg beiði yður."
Þá mælti Völsungur konungur: "Það munu allar þjóðir að orðum gera að eg mælti eitt orð óborinn og strengdi eg þess heit að eg skyldi hvorki flýja eld né járn fyrir hræðslu sakir, og svo hefi eg enn gert hér til og hví mundi eg eigi efna það á gamals aldri? Og eigi skulu meyjar því bregða sonum mínum í leikum að þeir hræðist bana sinn, því að eitt sinn skal hver deyja. Má engi undan komast að deyja um sinn. Er það mitt ráð að vér flýjum hvergi og gerum af vorri hendi sem hreystilegast. Eg hefi barist hundrað sinnum og hefi eg haft stundum meira lið en stundum minna og hefi eg jafnan sigur haft, og eigi skal það spyrjast að eg flýi né friðar biðji."
Nú grætur Signý sárlega og bað að hún skyldi eigi koma til Siggeirs konungs.
Völsungur konungur svarar: "Þú skalt að vísu fara heim til bónda þíns og vera samt með honum hversu sem með oss fer."
Nú gengur Signý heim en þeir búa eftir um nóttina.
Og um myrgininn þegar er dagar þá biður Völsungur konungur upp standa sína menn alla og ganga á land upp og búast við bardaga. Nú ganga þeir á land upp allir alvopnaðir og er eigi langt að bíða áður þar kemur Siggeir konungur með allan sinn her og verður þar hin harðasta orrusta með þeim og eggjar konungur lið sitt til framgöngu sem harðlegast. Og er svo sagt að Völsungur konungur og synir hans gengu átta sinnum í gegnum fylkingar Siggeirs konungs um daginn og höggva á tvær hendur. Og er þeir ætla enn svo að fara þá fellur Völsungur konungur í miðri fylkingu sinni og þar allt lið hans með honum nema synir hans tíu, því að miklu meira ofurefli var í móti en þeir mættu við standa. Nú eru synir hans allir teknir og í bönd reknir og á brott leiddir.
Signý varð vör við að faðir hennar var drepinn en bræður hennar höndum teknir og til bana ráðnir. Nú kallar hún Siggeir konung á einmæli.
Nú mælti Signý: "Þess vil eg biðja þig að þú látir eigi svo skjótt drepa bræður mína og látir þá heldur setja í stokk og kemur mér að því, sem mælt er, að unir auga meðan á sér og því bið eg þeim eigi lengra að eg ætla að mér muni ekki tjóa."
Þá svarar Siggeir: "Ær ertu og örvita er þú biður bræðrum þínum meira böls en þeir séu hoggnir. En þó skal það veita þér því að þess betur þykir mér er þeir þola verra og hafa lengri kvöl til bana."
Nú lætur hann svo gera sem hún bað og var tekinn einn mikill stokkur og felldur á fætur þeim tíu bræðrum í skógi einhvers staðar og sitja þeir nú þar þann dag allan til nætur. En að miðri nótt þá kom þar ylgur ein úr skógi, gömul, að þeim er þeir sátu í stokkinum. Hún var bæði mikil og illileg. Henni varð það fyrir að hún bítur einn þeirra til bana. Síðan át hún þann upp allan. Eftir það fór hún í brott.
En eftir um morguninn þá sendi Signý mann til bræðra sinna, þann er hún trúði best, að vita hvað títt sé. Og er hann kemur aftur, segir hann henni að dauður sé einn þeirra. Henni þótti þetta mikið ef þeir skulu svo fara allir en hún mátti ekki duga þeim.
Skjótt er þar frá að segja. Níu nætur í samt kom sjá hin sama ylgur um miðnætti og etur einn þeirra senn til bana uns allir eru dauðir nema Sigmundur einn er eftir.
Og nú áður tíunda nótt kemur, sendir Signý trúnaðarmann sinn til Sigmundar bróður síns og seldi í hönd honum hunang og mælti að hann skyldi ríða á andlit Sigmundar og leggja í munn honum sumt. Og fer hann til Sigmundar og gerir sem honum var boðið og fór heim síðan.
Um nóttina eftir þá kemur sú hin sama ylgur að vanda sínum og ætlaði að bíta hann til bana sem bræður hans. En nú dregur hún veðrið af honum þar sem hunangið var á riðið og sleikir andlit hans allt með tungu sér og réttir síðan tunguna í munn honum. Hann lætur sér verða óbilt og beit í tunguna ylginni. Hún bregður við fast og hnykkir sér hart og rak fæturna í stokkinn svo að hann klofnaði allur í sundur en hann hélt svo fast að tungan gekk úr ylginni upp í tungurótunum og fékk af því bana. En það er sögn sumra manna að sú hin sama ylgur væri móðir Siggeirs konungs og hafi hún brugðið á sig þessu líki fyrir tröllskapar sakir og fjölkynngi.
6. Sigmundur drap sonu Siggeirs
Nú er Sigmundur laus orðinn en brotinn er stokkurinn og hefst Sigmundur þar nú við í skóginum. Enn sendir Signý að vita hvað títt er eða hvort Sigmundur lifir. En er þeir koma þá segir hann þeim allan atburð, hve farið hafði með þeim og ylginni. Nú fara þeir heim og segja Signýju hvað títt er. Fór hún nú og hittir bróður sinn og taka þau það ráð að hann gerir þar jarðhús í skóginum, og fer nú því fram um hríð að Signý leynir honum þar og fær honum það er hann þurfti að hafa. En Siggeir konungur ætlar að þeir séu allir dauðir Völsungar.
Siggeir konungur átti tvo sonu við konu sinni og er frá því sagt, þá er hinn eldri son hans er tíu vetra, að Signý sendir hann til móts við Sigmund, að hann skyldi veita honum lið ef hann vildi nokkuð leita við að hefna föður síns.
Nú fer sveinninn til skógarins og kemur síð um aftaninn til jarðhúss Sigmundar og tekur hann við honum vel að hófi og mælti að hann skyldi gera til brauð þeirra, "en eg mun sækja eldivið." Og selur í hönd honum einn mjölbelg en hann fer sjálfur að sækja viðinn. Og er hann kemur aftur þá hefir sveinninn ekki að gert um brauðgerðina. Nú spyr Sigmundur hvort búið sé brauðið.
Hann segir: "Eigi þorði eg að taka mjölbelginn fyrir því að þar lá nokkuð kvikt í mjölinu."
Nú þykist Sigmundur vita að þessi sveinn mun eigi svo vel hugaður að hann vilji hann með sér hafa.
Nú er þau systkin finnast, segir Sigmundur að hann þótti ekki manni að nær þótt sveinninn væri hjá honum.
Signý mælti: "Tak þú hann þá og drep hann. Eigi þarf hann þá lengur að lifa."
Og svo gerði hann.
Nú líður sjá vetur. Og einum vetri síðar þá sendir Signý hinn yngra son sinn á fund Sigmundar og þarf þar eigi sögu um að lengja og fór sem samt sé, að hann drap þenna svein að ráði Signýjar.
7. Upphaf Sinfjötla
Þess er nú við getið eitthvert sinn þá er Signý sat í skemmu sinni að þar kom til hennar ein seiðkona, fjölkunnug harla mjög.
Þá talar Signý við hana: "Það vildi eg," segir hún, "að við skiptum hömum."
Hún segir, seiðkonan: "Þú skalt fyrir ráða."
Og nú gerir hún svo af sínum brögðum að þær skipta litum, og sest seiðkonan nú í rúm Signýjar að ráði hennar og fer í rekkju hjá konungi um kveldið og ekki finnur hann að eigi sé Signý hjá honum.
Nú er það frá Signýju að segja að hún fer til jarðhúss bróður síns og biður hann veita sér herbergi um nóttina, "því að eg hefi villst á skóginum úti og veit eg eigi hvar eg fer."
Hann mælti að hún skyldi þar vera og vildi eigi synja henni vistar, einni konu, og þóttist vita að eigi mundi hún svo launa honum góðan beina að segja til hans. Nú fer hún í herbergi til hans og setjast til matar. Honum varð oft litið til hennar og líst konan væn og fríð. En er þau eru mett þá segir hann henni að hann vill að þau hafi eina rekkju um nóttina en hún brýst ekki við því og leggur hann hana hjá sér þrjár nætur samt. Eftir það fer hún heim og hittir seiðkonuna og bað að þær skipti aftur litum og svo gerir hún.
Og er fram liðu stundir fæðir Signý sveinbarn. Sjá sveinn var Sinfjötli kallaður. Og er hann vex upp er hann bæði mikill og sterkur og vænn að áliti og mjög í ætt Völsunga og er eigi allra tíu vetra er hún sendir hann í jarðhúsið til Sigmundar.
Hún hafði þá raun gert við hina fyrri sonu sína, áður hún sendi þá til Sigmundar, að hún saumaði að höndum þeim með holdi og skinni. Þeir þoldu illa og kriktu um. Og svo gerði hún Sinfjötla. Hann brást ekki við. Hún fló hann þá af kyrtlinum svo að skinnið fylgdi ermunum. Hún kvað honum mundu sárt við verða.
Hann segir: "Lítið mundi slíkt sárt þykja Völsungi."
Og nú kemur sveinninn til Sigmundar. Þá bað Sigmundur hann knoða úr mjöli þeirra en hann vill sækja þeim eldivið. Fær í hönd honum einn belg. Síðan fer hann að viðinum og er hann kom aftur þá hafði Sinfjötli lokið að baka.
Þá spurði Sigmundur ef hann hafi nokkuð fundið í mjölinu.
"Eigi er mér grunlaust," sagði hann, "að eigi hafi í verið nokkuð kvikt í mjölinu fyrst er eg tók að knoða og hér hefi eg með knoðað það er í var."
Þá mælti Sigmundur og hló við: "Eigi get eg þig hafa mat af þessu brauði í kveld því að þar hefir þú knoðað með hinn mesta eiturorm."
Sigmundur var svo mikill fyrir sér að hann mátti eta eitur svo að hann skaðaði ekki, en Sinfjötla hlýddi það að eitur kæmi utan á hann en eigi hlýddi honum að eta það né drekka.
8. Hefnd Völsunga
Það er nú að segja að Sigmundi þykir Sinfjötli of ungur til hefnda með sér og vill nú fyrst venja hann með nokkuð harðræði. Fara nú um sumrum víða um skóga og drepa menn til fjár sér. Sigmundi þykir hann mjög í ætt Völsunga og þó hyggur hann að hann sé son Siggeirs konungs og hyggur hann hafa illsku föður síns en kapp Völsunga og ætlar hann eigi mjög frændrækinn því að hann minnir oft Sigmund á sína harma og eggjar mjög að drepa Siggeir konung.
Nú er það eitthvert sinn að þeir fara enn á skóginn að afla sér fjár en þeir finna eitt hús og tvo menn sofandi í húsinu með digrum gullhringum. Þeir höfðu orðið fyrir ósköpum því að úlfahamir hengu í húsinu yfir þeim. Hið tíunda hvert dægur máttu þeir komast úr hömunum. Þeir voru konungasynir. Þeir Sigmundur fóru í hamina og máttu eigi úr komast og fylgdi sú náttúra sem áður var. Létu og vargsröddu. Þeir skildu báðir röddina.
Nú leggjast þeir og á merkur og fer sína leið hvor þeirra. Þeir gera þann mála með sér að þeir skuli til hætta þótt sjö menn séu en eigi framar, en sá láta úlfsrödd er fyrir ófriði yrði.
"Bregðum nú eigi af þessu," segir Sigmundur, "því að þú ert ungur og áræðisfullur. Munu menn gott hyggja til að veiða þig."
Nú fer sína leið hvor þeirra. Og er þeir voru skildir, finnur Sigmundur sjö menn og lætur úlfsröddu. Og Sinfjötli heyrir það, fer til þegar og drepur alla.
Þeir skiljast enn. Og er Sinfjötli hefir eigi lengi farið um skóginn, finnur hann ellefu menn og berst við þá og fer svo að hann drepur þá alla. Hann verður og sár mjög, fer undir eina eik og hvílist þar.
Þá kemur Sigmundur þar að og mælti: "Því kallaðir þú ekki?" Sinfjötli sagði: "Eigi vildi eg kveðja þig til liðs. Þú þást lið til að drepa sjö menn, en eg em barn að aldri hjá þér og kvaddi eg eigi liðs að drepa ellefu menn."
Sigmundur hleypur að honum svo hart að hann stakar við og fellur. Sigmundur bítur í barkann framan. Þann dag máttu þeir eigi komast úr úlfahömunum. Sigmundur leggur hann nú á bak sér og ber heim í skálann og sat hann yfir honum en bað tröll taka úlfhamina.
Sigmundur sér einn dag hvar hreysikettir tveir voru, og bítur annar í barkann öðrum og rann sá til skógar og hefir eitt blað og færir yfir sárið og sprettur upp hreysikötturinn heill. Sigmundur gengur út og sér hvar hrafn flýgur með blaðið og færði honum. Hann dregur þetta yfir sárið Sinfjötla en hann sprettur upp þegar heill sem hann hefði aldrei sár verið.
Eftir það fara þeir til jarðhúss og eru þar til þess er þeir skyldu fara úr úlfhömunum. Þá taka þeir og brenna í eldi og báðu engum að meini verða. Og í þeim ósköpum unnu þeir mörg frægðarverk í ríki Siggeirs konungs. Og er Sinfjötli er frumvaxti þá þykist Sigmundur hafa reynt hann mjög.
Nú líður eigi langt áður Sigmundur vill leita til föðurhefnda, ef svo vildi takast. Og nú fara þeir í brott frá jarðhúsinu einhvern dag og koma að bæ Siggeirs konungs síð um aftan og ganga inn í forstofuna þá er var fyrir höllinni, en þar voru inni ölker, og leynast þar.
Drottningin veit nú hvar þeir eru og vill hitta þá. Og er þau finnast, gera þau það ráð að þeir leituðu föðurhefnda er náttaði.
Þau Signý og konungur eiga tvö börn ung að aldri. Þau leika sér á gólfinu að gulli og renna því eftir gólfinu hallarinnar og hlaupa þar eftir. Og einn gullhringur hrýtur utar í húsið þar sem þeir Sigmundur eru en sveinninn hleypur eftir að leita hringsins. Nú sér hann hvar sitja tveir menn miklir og grimmlegir og hafa síða hjálma og hvítar brynjur. Nú hleypur hann í höllina innar fyrir föður sinn og segir honum hvað hann hefir séð. Nú grunar konungur að vera munu svik við hann.
Signý heyrir nú hvað þeir segja. Hún stendur upp, tekur börnin bæði og fer utar í forstofuna til þeirra og mælti að þeir skyldu það vita að þau hefðu sagt til þeirra: "Og ræð eg ykkur að þið drepið þau."
Sigmundur segir: "Eigi vil eg drepa börn þín þótt þau hafi sagt til mín."
En Sinfjötli lét sér ekki feilast og bregður sverði og drepur hvorttveggja barnið og kastar þeim innar í höllina fyrir Siggeir konung.
Konungur stendur nú upp og heitir á menn að taka þá menn er leynst höfðu í forstofunni um kveldið. Nú hlaupa menn utar þangað og vilja höndla þá en þeir verja sig vel og drengilega og þykist þá sá verst hafa lengi er næst er. Og um síðir verða þeir ofurliði bornir og verða handteknir og því næst í bönd reknir og í fjötra settir, og sitja þeir þar þá nótt alla.
Nú hyggur konungur að fyrir sér hvern dauða hann skal fá þeim, þann er kenndi lengst. Og er morgunn kom þá lætur konungur haug mikinn gera af grjóti og torfi. Og er þessi haugur er ger þá lét hann setja hellu mikla í miðjan hauginn svo að annar jaðar hellunnar horfði upp en annar niður. Hún var svo mikil að hún tók tveggja vegna svo að eigi mátti komast hjá henni. Nú lætur hann taka þá Sigmund og Sinfjötla og setja í hauginn, sínum megin hvorn þeirra, fyrir því að honum þótti þeim það verra að vera eigi báðum saman en þó mátti heyra hvor til annars.
Og er þeir voru að tyrfa hauginn þá kemur Signý þar að og hefir hálm í fangi sér og kastar í hauginn til Sinfjötla og biður þrælana leyna konunginn þessu. Þeir já því og er þá lokið aftur hauginum.
Og er nátta tekur þá mælti Sinfjötli til Sigmundar: "Ekki ætla eg okkur mat skorta um hríð hér. Hefir drottningin kastað fleski inn í hauginn og vafið um utan hálmi."
Og enn þreifar hann um fleskið og finnur að þar var stungið í sverði Sigmundar og kenndi að hjöltunum, er myrkt var í hauginum, og segir Sigmundi. Þeir fagna því báðir. Nú skýtur Sinfjötli blóðreflinum fyrir ofan helluna og dregur fast. Sverðið bítur helluna. Sigmundur tekur nú blóðrefilinn og ristu nú í milli sín helluna og létta eigi fyrr en lokið er að rista, sem kveðið er:
Ristu af magni
mikla hellu
Sigmundr hjörvi
og Sinfjötli.
Og nú eru þeir lausir báðir saman í hauginum og rista bæði grjót og járn og komast svo út úr hauginum.
Þeir ganga nú heim til hallarinnar. Eru menn þá í svefni allir. Þeir bera við að höllunni og leggja eld í viðinn. En þeir vakna við gufuna er inni eru og það að höllin logar yfir þeim.
Konungur spyr hverjir eldana gerðu.
"Hér erum við Sinfjötli systurson minn," sagði Sigmundur, "og ætlum við nú að það skulir þú vita að eigi eru allir Völsungar dauðir."
Hann biður systur sína út ganga og þiggja af honum góð metorð og mikinn sóma og vill svo bæta henni sína harma.
Hún svarar: "Nú skaltu vita hvort eg hefi munað Siggeiri konungi dráp Völsungs konungs. Eg lét drepa börn okkar er mér þóttu ofsein til föðurhefnda og eg fór í skóg til þín í völvulíki og er Sinfjötli okkar son. Hefir hann af því mikið kapp að hann er bæði sonarson og dótturson Völsungs konungs. Hefi eg þar til unnið alla hluti að Siggeir konungur skyldi bana fá. Hefi eg og svo mikið til unnið að fram kæmist hefndin að mér er með öngum kosti líft. Skal eg nú deyja með Siggeiri konungi lostug, er eg átti hann nauðug."
Síðan kyssti hún Sigmund bróður sinn og Sinfjötla og gekk inn í eldinn og bað þá vel fara. Síðan fékk hún þar bana með Siggeiri konungi og allri hirð sinni.
Þeir frændur fá sér lið og skipa, og heldur Sigmundur til ættleifðar sinnar og rekur úr landi þann konung er þar hafði í sest eftir Völsung konung. Sigmundur gerist nú ríkur konungur og ágætur, vitur og stórráður. Hann átti þá konu er Borghildur hét. Þau áttu tvo sonu. Hét Helgi annar, hinn annar Hámundur.
Og er Helgi var fæddur, komu til nornir og veittu honum formála og mæltu að hann skyldi verða allra konunga frægastur.
Sigmundur var þá kominn frá orrustu og gekk með einum lauk í mót syni sínum og hér með gefur hann honum Helga nafn og þetta að nafnfesti: Hringstaði og Sólfjöll og sverð, og bað hann vel fremjast og verða í ætt Völsunga. Hann gerist stórlyndur og vinsæll og fyrir flestum mönnum öðrum að allri atgervi. Það er sagt að hann réðst í hernað þá er hann var fimmtán vetra gamall. Var Helgi konungur yfir liðinu en Sinfjötli var fenginn til með honum og réðu báðir liði.
9. Frá Helga Hundingsbana
Það er sagt að Helgi finnur þann konung í hernaði er Hundingur hét. Hann var ríkur konungur og fjölmennur og réð fyrir löndum. Þar tekst orrusta með þeim og gengur Helgi fast fram og lýkst með því sjá bardagi að Helgi fær sigur en Hundingur konungur fellur og mikill hluti liðs hans. Nú þykir Helgi hafa vaxið mikið er hann hefir fellt svo ríkan konung.
Synir Hundings bjóða nú út her í mót Helga og vilja hefna föður síns. Þeir eiga harða orrustu og gengur Helgi í gegnum fylkingar þeirra bræðra og sækir að merkjum sona Hundings konungs og felldi þessa Hundings sonu: Álf og Eyjólf, Hervarð og Hagbarð. Og fékk hér ágætan sigur.
Og er Helgi fer frá orrustu þá fann hann við skóg einn konur margar og virðulegar sýnum og bar þó ein af öllum. Þær riðu með ágætlegum búningi. Helgi spyr þá að nafni er fyrir þeim var. En hún nefndist Sigrún og kveðst vera dóttir Högna konungs.
Helgi mælti: "Farið heim með oss og verið velkomnar."
Þá segir konungsdóttir: "Annað starf liggur fyrir oss en drekka með þér."
Helgi svarar: "Hvað er það, konungsdóttir?"
Hún svarar: "Högni konungur hefir heitið mig Höðbroddi, syni Granmars konungs, en eg hefi því heitið að eg vil eigi eiga hann heldur en einn krákuunga. En þó mun þetta fram fara nema þú bannir honum og komir í mót honum með her og nemir mig á brott því að með engum konungi vildi eg heldur setur búa en með þér."
"Ver kát, konungsdóttir," sagði hann. "Fyrri skulum við reyna hreysti okkar en þú sért honum gift og reyna skulum við áður hvor af öðrum ber, og hér skal lífið á leggja."
Eftir þetta sendir Helgi menn með fégjöfum að stefna að sér mönnum og stefnir öllu liðinu til Rauðabjarga. Beið Helgi þar til þess er mikill flokkur kom til hans úr Héðinsey og þá kom til hans mikið lið úr Nörvasundum með fögrum skipum og stórum.
Helgi konungur kallar til sín skipstjórnarmann sinn, er Leifur hét, og spurði ef hann hefði talið lið þeirra.
En hann svarar: "Eigi er hægt að telja, herra, skip þau er komin eru úr Nörvasundum. Eru á tólf þúsundir manna og er þó hálfu fleira annað."
Þá mælti Helgi konungur að þeir skyldu snúa á þann fjörð er heitir Varinsfjörður og svo gerðu þeir. Nú gerði að þeim storm mikinn og svo stóran sjó að því var líkast að heyra er bylgjur gnúðu á borðunum sem þá er björgum lysti saman. Helgi bað þá ekki óttast og eigi svipta seglunum heldur setja hvert hærra en áður. Þá var við sjálft að yfir mundi ganga áður þeir kæmu að landi. Þá kom þar Sigrún, dóttir Högna konungs, af landi ofan með miklu liði og snýr þeim í góða höfn er heitir að Gnípalundi.
Þessi tíðindi sáu landsmenn og kom af landi ofan bróðir Höðbrodds konungs, er þar réð fyrir er heitir að Svarinshaugi. Hann kallar á þá og spyr hver stýrði hinu mikla liði.
Sinfjötli stendur upp og hefir hjálm á höfði skyggðan sem gler og brynju hvíta sem snjó, spjót í hendi, með ágætlegu merki og gullrenndan skjöld fyrir sér. Sá kunni að mæla við konunga:
"Seg svo, að þú hefir gefið svínum og hundum og þú finnur konu þína, að hér eru komnir Völsungar og mun hér hittast í liðinu Helgi konungur ef Höðbroddur vill finna hann og er það hans gaman að berjast með frama meðan þú kyssir ambáttir við eld."
Granmar svarar: "Eigi muntu kunna mart virðulegt mæla eða forn minni að segja er þú lýgur á höfðingja. Mun hitt sannara að þú munt lengi hafa fæðst á mörkum úti við vargamat og drepið bræður þína, og er kynlegt er þú þorir að koma í her með góðum mönnum er mart kalt hræ hefir sogið til blóðs."
Sinfjötli svarar: "Eigi muntu glöggt muna nú er þú varst völvan í Varinsey og kvaðst vilja mann eiga og kaust mig til þess embættis að vera þinn maður. En síðan varstu valkyrja í Ásgarði og var við sjálft að allir mundu berjast fyrir þínar sakar. Og eg gat við þér níu varga á Láganesi og var eg faðir allra."
Granmar svarar: "Mart kanntu ljúga. Eg hygg að engis faðir mættir þú vera síðan þú varst geltur af dætrum jötunsins á Þrasnesi, og ertu stjúpson Siggeirs konungs og lást á mörkum úti með vörgum og komu þér öll óhöpp senn að hendi. Þú drapst bræður þína og gerðir þig að illu kunnan."
Sinfjötli svarar: "Hvort manstu það er þú varst merin með hestinum Grana og reið eg þér á skeið á Brávelli. Síðan varstu geitasveinn Gölnis jötuns."
Granmar segir: "Fyrri vildi eg seðja fugla á hræi þínu en deila við þig lengur."
Þá mælti Helgi konungur: "Betra væri ykkur og meira snjallræði að berjast en mæla slíkt er skömm er að heyra. Og ekki eru Granmars synir vinir mínir en þó eru þeir harðir menn."
Granmar ríður nú í brott og til fundar til Höðbrodd konung þar sem heita Sólfjöll. Hestar þeirra heita Sveipuður og Sveggjuður. Þeir mættust í borgarhliði og segja honum hersögu.
Höðbroddur konungur var í brynju og hafði hjálm á höfði. Hann spyr hverjir þar væru: "Eða hví eruð þér svo reiðulegir?"
Granmar segir: "Hér eru komnir Völsungar og hafa tólf þúsundir manna við land og sjö þúsundir við ey þá er Sök heitir, en þar sem heitir fyrir Grindum er þó mestur fjöldi, og hygg eg nú að Helgi muni nú berjast vilja."
Konungur segir: "Gerum þá boð um allt vort ríki og sækjum í mót þeim. Sitji sá engi heima er berjast vill. Sendum orð Hrings sonum og Högna konungi og Álfi hinum gamla, þeir eru bardagamenn miklir."
Fundust þeir þar er heitir Frekasteinn og tókst þar hörð orrusta. Helgi gengur fram í gegnum fylkingar. Þar varð mikið mannfall. Þá sáu þeir skjaldmeyjaflokk mikinn svo sem í loga sæi. Þar var Sigrún konungsdóttir. Helgi konungur sótti í mót Höðbroddi konungi og fellir hann undir merkjum.
Þá mælti Sigrún: "Haf þökk fyrir þetta þrekvirki. Skipt mun nú löndum. Er mér þetta mikill tímadagur og muntu fá af þessu veg og ágæti er þú hefir svo ríkan konung felldan."
Það ríki tók Helgi konungur og dvaldist þar lengi og fékk Sigrúnar og gerðist frægur konungur og ágætur og er hann hér ekki síðan við þessa sögu.
10. Dauði Sinfjötla
Völsungar fara nú heim og hafa enn mikið aukið sitt ágæti. Sinfjötli leggst nú í hernað af nýju. Hann sér eina fagra konu og girnist mjög að fá hennar. Þeirrar konu bað og bróðir Borghildar er átti Sigmundur konungur. Þeir þreyta þetta mál með orrustu og fellir Sinfjötli þenna konung. Hann herjar nú víða og á margar orrustur og hefir ávallt sigur. Gerist hann manna frægstur og ágætastur og kemur heim um haustið með mörgum skipum og miklu fé.
Hann segir föður sínum tíðindin en hann segir drottningu. Hún biður Sinfjötla fara brott úr ríkinu og læst eigi vilja sjá hann. Sigmundur kveðst eigi láta hann í brott fara og býður að bæta henni með gulli og miklu fé, þótt hann hefði öngan fyrri bætt mann. Kvað engi frama að sakast við konur. Hún má nú þessu eigi á leið koma.
Hún mælti: "Þér skuluð ráða herra, það samir."
Hún gerir nú erfi bróður síns með ráði konungs. Býr nú þessa veislu með hinum bestum föngum og bauð þangað mörgu stórmenni. Borghildur bar mönnum drykk. Hún kemur fyrir Sinfjötla með miklu horni.
Hún mælti: "Drekk nú, stjúpson."
Hann tók við og sá í hornið og mælti: "Göróttur er drykkurinn."
Sigmundur mælti: "Fá mér þá." Hann drakk af.
Drottningin mælti: "Hví skulu aðrir menn drekka fyrir þig öl?"
Hún kom í annað sinn með hornið: "Drekk nú," - og frýði honum með mörgum orðum.
Hann tekur við horninu og mælti: "Flærður er drykkurinn."
Sigmundur mælti: "Fá mér þá."
Hið þriðja sinn kom hún og bað hann drekka af, ef hann hefði hug Völsunga.
Sinfjötli tók við horninu og mælti: "Eitur er í drykknum."
Sigmundur svarar: "Lát grön sía, sonur," sagði hann.
Þá var konungur drukkinn mjög og því sagði hann svo.
Sinfjötli drekkur og fellur þegar niður.
Sigmundur rís upp og gekk harmur sinn nær bana. Og tók líkið í fang sér og fer til skógar og kom loks að einum firði. Þar sá hann mann á einum báti litlum. Sá maður spyr ef hann vildi þiggja að honum far yfir fjörðinn. Hann játtar því. Skipið var svo lítið að það bar þá eigi og var líkið fyrst flutt en Sigmundur gekk með firðinum. Og því næst hvarf Sigmundi skipið og svo maðurinn.
Of eftir það snýr Sigmundur heim. Rekur nú í brott drottninguna og litlu síðar dó hún. Sigmundur konungur ræður nú enn ríki sínu og þykir verið hafa hinn mesti kappi og konungur í fornum sið.
11. Fall Sigmundar Völsungssonar
Eylimi hefir konungur heitið, ríkur og ágætur. Dóttir hans hét Hjördís, allra kvenna vænst og vitrust. Og það spyr Sigmundur konungur að hún var við hans æði eða engin ella. Sigmundur sækir heim Eylima konung. Hann gerir veislu í mót honum mikla ef hann hefði eigi herferð þangað. Fara nú boð þeirra í milli að með vinsemd var nú farið en eigi með herskap. Veisla þessi var gerð með hinum bestum föngum og með miklu fjölmenni. Sigmundi konungi var hvarvetna sett torg og annar farargreiði. Koma nú til veislu og skipa báðir konungar eina höll.
Þar var og kominn Lyngvi konungur, son Hundings konungs, og vill hann og mægjast við Eylima konung. Hann þykist sjá að þeir munu eigi hafa eitt erindi. Þykist og vita að ófriðar mun af þeim von er eigi fær.
Nú mælti konungur við dóttur sína: "Þú ert vitur kona en eg hefi það mælt að þú skalt þér mann kjósa. Kjós nú um tvo konunga og er það mitt ráð hér um sem þitt er."
Hún svarar: "Vant sýnist mér þetta mál en þó kýs eg þann konung er frægstur er, en það er Sigmundur konungur þótt hann sé mjög aldri orpinn."
Og var hún honum gefin. En Lyngvi konungur fór í brott. Sigmundur kvángaðist og fékk Hjördísar. Var þar annan dag öðrum betur veitt eða með meira kappi.
Eftir það fór Sigmundur konungur heim í Húnaland og Eylimi konungur, mágur hans, við honum, og gætir nú ríkis síns. En Lyngvi konungur og bræður hans safna nú her að sér og fara nú á hendur Sigmundi konungi því að þeir höfðu jafnan minna hlut úr málum þótt þetta biti nú fyrir. Vilja þeir nú fyrirkoma kappi Völsunga. Koma nú í Húnaland og senda Sigmundi konungi orð og vilja eigi stelast á hann en þykjast vita að hann mun eigi flýja.
Sigmundur konungur kveðst koma mundu til orrustu. Hann dró saman her en Hjördísi var ekið til skógar við eina ambátt og mikið fé fór með þeim. Hún var þar meðan þeir börðust.
Víkingar hljópu frá skipum við óvígan her. Sigmundur konungur og Eylimi settu upp merki sín og var þá blásið í lúðra. Sigmundur konungur lætur nú við kveða sitt horn, er faðir hans hafði átt, og eggjar sína menn. Hafði Sigmundur lið miklu minna. Tekst þar nú hörð orrusta og þótt Sigmundur væri gamall þá barðist hann nú hart og var jafnan fremstur sinna manna. Hélst hvorki við honum skjöldur né brynja og gekk hann jafnan í gegnum lið óvina sinna á þeim degi og engi mátti sjá hversu fara mundi þeirra í millum. Mart spjót var þar á lofti og örvar. En svo hlífðu honum hans spádísir að hann varð ekki sár og engi kunni töl hversu margur maður féll fyrir honum. Hann hafði báðar hendur blóðgar til axlar.
Og er orrusta hafði staðið um hríð þá kom maður í bardagann með síðan hatt og heklu blá. Hann hafði eitt auga og geir í hendi. Þessi maður kom á mót Sigmundi konungi og brá upp geirinum fyrir hann og er Sigmundur konungur hjó fast kom sverðið í geirinn og brast í sundur í tvo hluti.
Síðan sneri mannfallinu og voru Sigmundi konungi horfin heill og féll mjög liðið fyrir honum. Konungurinn hlífði sér ekki og eggjar mjög liðið. Nú er sem mælt, að eigi má við margnum.
Í þessi orrustu féll Sigmundur konungur og Eylimi konungur, mágur hans, í öndverðri fylkingu og mestur hluti liðs hans.
12. Frá Hjördísi drottningu og Álfi konungi
Lyngvi konungur sækir nú til konungsbæjarins og ætlar að taka þar konungsdóttur en það brást honum. Fékk hann þar hvorki konu né fé. Hann fer nú yfir landið og skipar þar sínum mönnum ríkið. Þykist nú hafa drepið alla ætt Völsunga og ætlar þá eigi munu þurfa að óttast héðan frá.
Hjördís gekk í valinn eftir orrustuna um nóttina og kom að þar sem Sigmundur konungur lá og spyr ef hann væri græðandi.
En hann svarar: "Margur lifnar úr litlum vonum en horfin eru mér heill svo að eg vil eigi láta græða mig. Vill Óðinn ekki að vér bregðum sverði síðan er nú brotnaði. Hefi eg haft orrustur meðan honum líkaði."
Hún mælti: "Engis þætti mér ávant ef þú yrðir græddur og hefndir föður míns."
Konungur segir: "Öðrum er það ætlað. Þú ferð með sveinbarn og fæð það vel og vandlega og mun sá sveinn ágætur og fremstur af vorri ætt. Varðveit og vel sverðsbrotin. Þar af má gera gott sverð er heita mun Gramur og sonur okkar mun bera og þar mörg stórverk með vinna, þau er aldrei munu fyrnast, og hans nafn mun uppi meðan veröldin stendur. Uni nú við það. En mig mæða sár og eg mun nú vitja frænda vorra framgenginna."
Hjördís situr nú yfir honum uns hann deyr og þá lýsir af degi. Hún sér að mörg skip eru komin við land.
Hún mælti til ambáttarinnar: "Við skulum skipta klæðum og skaltu nefnast nafni mínu og segst konungsdóttir."
Og þær gera svo. Víkingar geta að líta mikið mannfall og svo hvar konurnar fóru til skógar. Skilja að stórtíðindum mun gegna og hlaupa af skipum. En fyrir þessu liði réð Álfur, son Hjálpreks kóngs af Danmörk. Hann hafði farið fyrir land fram með her sínum. Koma nú í valinn. Þar sjá þeir mikið mannfall.
Konungurinn biður nú að leita að konunum og svo gerðu þeir. Hann spyr hverjar þær væru, en þar skiptir eigi að líkindum til. Ambáttin hefir svör fyrir þeim og segir fall Sigmundar konungs og Eylima konungs og margs annars stórmennis og svo hverjir gert hafa. Konungur spurði hvort þær vissu hvar fé konungs væri fólgið.
Ambáttin svarar: "Meiri von að vér vitum," - og vísar til fjárins. Og finna þeir auð mikinn svo að eigi þóttust menn séð hafa jafnmikið saman koma í einn stað eða fleiri gersimar. Bera til skipa Álfs konungs. Hjördís fylgdi honum og svo ambáttin. Hann fer nú heim í ríki sitt en lætur að þar séu fallnir þeir konungar er frægstir voru. Konungur sest við stjórn en þær sátu í fyrirrúmi á skipinu. Hann á tal við þær og leggur virðing á ræður þeirra.
Konungur kom heim í ríki sitt við miklu fé.
Álfur var manna gervilegastur.
Og er þau hafa skamma stund heima verið, spyr drottningin Álf son sinn: "Hví hefir hin fegri kona færri hringa eða verra búnað? Og virðist mér að sú muni æðri er þér hafið minna yfir látið."
Hann svarar: "Grunað hefir mig það að eigi sé ambáttarmót á henni. Og þá er vér fundumst, þá tókst henni vel að fagna tignum mönnum og hér til skal gera eina raun."
Það er nú eitt sinn við drykkju að konungur sest á tal við þær og mælti: "Hvað hafið þér að marki um dægurfar þá er nótt eldir ef þér sjáið eigi himintungl?"
Hún svarar: "Það mark höfum vér hér til að eg var því vön í æsku að drekka mjög í óttu og er eg lét af því, vöknuðum vér eftir því síðan, og er það mitt mark."
Konungur brosti að og mælti: "Illa var konungsdóttir vönd."
Hann hittir þá Hjördísi og spyr hana slíks hins sama. Hún svarar honum: "Faðir minn gaf mér eitt gull lítið, við náttúru. Það kólnar í óttu á fingri mér. Það er mitt mark hér um."
Konungur svarar: "Gnótt var þar gulls er ambáttir báru og munuð þér ærið lengi leynst hafa fyrir mér. Og svo mundi eg til þín gert hafa sem við værum eins konungs börn bæði, þóttú hefðir þetta sagt. Og enn skal gera að verðleikum betur við þig, því að þú skalt vera mín kona og skal eg gjalda mund við þér þá er þú hefir barn getið."
Hún svarar og segir allt hið sanna um sitt ráð. Er hún nú þar í miklum sóma og þykir hin virðulegasta kona.
13. Frá Sigurði Fáfnisbana og Regin
Það er nú sagt að Hjördís fæðir sveinbarn og er sveinninn færður Hjálpreki konungi. Konungurinn varð glaður við er hann sá þau hin hvössu augu er hann bar í höfði og sagði hann öngum mundu líkan verða eða samjafnan og var hann vatni ausinn með Sigurðar nafni. Frá honum segja allir eitt, að um atferð og vöxt var engi hans maki. Hann var þar fæddur með Hjálpreki konungi af mikilli ást. Og þá er nefndir eru allir hinir ágætustu menn og konungar í fornsögum, þá skal Sigurður fyrir ganga um afl og atgervi, kapp og hreysti, er hann hefir haft um hvern mann fram annarra í norðurálfu heimsins.
Sigurður óx þar upp með Hjálpreki og unni hvert barn honum. Hann fastnaði Álfi konungi Hjördísi og mælti henni mund.
Reginn hét fóstri Sigurðar og var Hreiðmarsson. Hann kenndi honum íþróttir, tafl og rúnar og tungur margar að mæla, sem þá var títt konungasonum, og marga hluti aðra.
Eitt sinn spurði Reginn Sigurð, er þeir voru báðir saman, ef hann vissi hversu mikið fé faðir hans hefði átt eða hverjir það varðveittu. Sigurður svarar og segir að konungar varðveittu.
Reginn mælti: "Trúir þú þeim allvel?"
Sigurður svarar: "Það samir að þeir varðveiti þar til er oss hallkvæmist því að þeir kunnu betur að gæta en eg."
Annað sinni kemur Reginn að máli við Sigurð og mælti:
"Kynlegt er það er þú vilt vera hestasveinn konunga eða fara sem hlauparar."
Sigurður svarar: "Eigi er það, því að vér ráðum öllu með þeim. Er oss og heimilt það er vér viljum hafa."
Reginn mælti: "Bið hann gefa þér einn hest."
Sigurður svarar: "Þegar mun það er eg vil."
Sigurður hittir nú konunga. Þá mælti konungur við Sigurð: "Hvað viltu af oss þiggja?"
Sigurður svarar: "Einn hest viljum vér þiggja oss til skemmtanar."
Konungurinn mælti: "Kjós þér sjálfur hest og slíkt er þú vilt hafa af vorri eigu."
Annan dag eftir fór Sigurður til skógar og mætir einum gömlum manni með síðu skeggi. Sá var honum ókunnugur. Hann spyr hvert Sigurður skyldi fara.
Hann svarar: "Hest skyldum vér kjósa. Ráð um með oss."
Hann mælti: "Förum og rekum til árinnar er Busiltjörn heitir."
Þeir reka hrossin út á djúp árinnar og leggjast að landi nema einn hestur. Hann tók Sigurður. Hann var grár að lit og ungur að aldri, mikill vexti og vænn. Engi hafði honum á bak komið.
Skeggmaðurinn mælti: "Þessi hestur er kominn frá Sleipni og skal hann vandlega upp fæða því að hann verður hverjum hesti betri."
Maðurinn hverfur þá. Sigurður kallar hestinn Grana og hefir sá hestur bestur verið. Óðinn hafði hann hittan.
Enn mælti Reginn til Sigurðar: "Of lítið fé eigið þér. Það harmar oss er þér hlaupið sem þorparasveinar. En eg veit mikla févon að segja þér og er það meiri von að það sé sómi að sækja og virðing ef þú næðir."
Sigurður spyr hvar væri eða hver varðveitti.
Reginn svarar: "Sá heitir Fáfnir er hér liggur skammt héðan á brott. Það heitir Gnitaheiður. Og er þú kemur þar þá muntu það mæla: Aldrei sástu meira fé í gulli í einum stað og eigi þarftu meira þóttú verðir allra konunga elstur og frægstur."
Sigurður svarar: "Kann eg kyn þessa orms þótt vér séum ungir og hefi eg spurt að engi þorir að koma á mót honum fyrir vaxtar sakir og illsku."
Reginn svarar: "Það er ekki. Sá vöxtur er eftir hætti lyngorma og er gert af miklu meira en er, og svo mundi þótt hafa hinum fyrrum frændum þínum. Og þótt Völsungaætt sé að þér þá muntu eigi hafa þeirra skaplyndi er fyrst eru taldir til alls frama."
Sigurður svarar: "Vera má að eigi höfum vér mikið af þeirra kappi eða snilld en eigi ber nauðsyn til að frýja oss er vér erum enn lítt af barnsaldri. Eða hví eggjar þú þessa svo mjög?"
Reginn svarar: "Saga er til þess og mun eg segja þér."
Sigurður mælti: "Lát mig heyra."
14. Frá otursgjöldum
"Það er upphaf sögu þessar að Hreiðmar hét faðir minn, mikill og auðugur. Son hans hét Fáfnir, hinn annar hét Otur og var eg hinn þriðji og var eg minnstur fyrir mér um atgervi og yfirlát. Kunni eg af járni gera, og af silfri og gulli og hverjum hlut gerði eg nokkuð nýtt. Otur bróðir minn hafði aðra iðn og náttúru. Hann var veiðimaður mikill og umfram aðra menn og var í oturs líki um daga og var jafnan í ánni og bar upp fiska með munni sér. Veiðiföngin færði hann föður sínum og var honum það mikill styrkur. Mjög hefir hann oturs líki á sér, kom síð heim og át blundandi og einn saman því að hann mátti eigi sjá að þyrri. Fáfnir var miklu mestur og grimmastur og vildi sitt eitt kalla láta allt það er var.
Einn dvergur heitir Andvari," segir Reginn. "Hann var jafnan í fossinum er Andvarafoss heitir í geddu líki og fékk sér þar matar því að þar var fjöldi fiska í þeim fossi. Otur bróðir minn fór jafnan í þenna foss og bar upp fiska í munni sér og lagði einn senn á land.
Óðinn, Loki, Hænir, fóru leiðar sinnar og komu til Andvarafoss. Otur hafði þá tekið einn lax og át blundandi á árbakkanum. Loki tók einn stein og laust oturinn til bana. Æsir þóttust mjög heppnir af veiði sinni og flógu belg af otrinum. Það kveld komu þeir til Hreiðmars og sýndu honum veiðina. Þá tókum vér þá höndum og lögðum á þá gjald og fjárlausn, að þeir fylltu belginn af gulli og hyldu hann utan með rauðu gulli.
Þá sendu þeir Loka að afla gullsins. Hann kom til Ránar og fékk net hennar. Fór þá til Andvarafoss og kastaði netinu fyrir gedduna en hún hljóp í netið. Þá mælti Loki:
"Hvað er það fiska
er rennur flóði í,
kannat sér við víti varast?
Höfuð þitt
leystu helju úr
og finn mér lindar loga."
"Andvari eg heiti,
Óinn hét minn faðir,
margan hefi eg foss of farið.
Aumleg norn
skóp oss í árdaga
að eg skyldi í vatni vaða."
Loki sér gull það er Andvari átti. En er hann hafði fram reitt gullið þá hafði hann eftir einn hring og tók Loki hann af honum. Dvergurinn gekk í steininn og mælti að hverjum skyldi að bana verða er þann gullhring ætti og svo allt gullið.
Æsirnir reiddu Hreiðmari féð og tróðu upp oturbelginn og settu á fætur. Þá skyldu æsirnir hlaða upp hjá gullinu og hylja utan. En er það var gert þá gekk Hreiðmar fram og sá eitt granahár og bað hylja. Þá dró Óðinn hringinn af hendi sér, Andvaranaut, og huldi hárið. Þá kvað Loki:
"Gull er þér nú reitt
en þú gjöld hefir
mikil míns höfuðs.
Syni þínum
verðrat sæla sköpuð,
það er ykkar beggja bani."
"Síðan drap Fáfnir föður sinn," segir Reginn, "og myrti hann og náði eg öngu af fénu. Hann gerðist svo illur að hann lagðist út og unni öngum að njóta fjárins nema sér og varð síðan að hinum versta ormi og liggur nú á því fé. Síðan fór eg til konungs og gerðist eg smiður hans. Og er þessi ræða til minnar sögu, að eg missi föðurarfsins og bróðurgjaldanna. Gullið er síðan kallað otursgjöld og hér dæmi af tekin."
Sigurður svarar: "Mikið hefir þú látið og stórillir hafa þínir frændur verið. Ger nú eitt sverð af þínum hagleik, það er ekki sé jafngott gert og eg megi vinna stórverk ef hugur dugir, ef þú vilt að eg drepi þenna hinn mikla dreka."
Reginn segir: "Það geri eg með trausti og muntu mega drepa Fáfni með því sverði."
15. Sverðssmíð Regins
Reginn gerir nú eitt sverð og fær í hönd Sigurði. Hann tók við sverðinu og mælti: "Þetta er þitt smíði, Reginn," - og höggur í steðjann og brotnaði sverðið. Hann kastar brandinum og bað hann smíða annað betra.
Reginn gerir annað sverð og fær Sigurði. Hann leit á: "Þetta mun þér líka en vant mun yður að smíða."
Sigurður reynir þetta sverð og brýtur sem hið fyrra.
Þá mælti Sigurður til Regins: "Þú munt líkur vera hinum fyrrum frændum þínum og vera ótrúr."
Gekk nú til móður sinnar. Hún fagnar honum vel. Talast nú við og drekka.
Þá mælti Sigurður: "Hvort höfum vér rétt til spurt að Sigmundur konungur seldi yður sverðið Gram í tveim hlutum?"
Hún svarar: "Satt er það."
Sigurður mælti: "Fá mér í hönd. Eg vil hafa."
Hún kvað hann líklegan til frama og fær honum sverðið.
Sigurður hittir nú Regin og bað hann þar gera af sverð eftir efnum. Reginn reiddist og gekk til smiðju með sverðsbrotin og þykir Sigurður framgjarn um smíðina. Reginn gerir nú eitt sverð. Og er hann bar úr aflinum sýndist smiðjusveinum sem eldar brynnu úr eggjunum. Biður nú Sigurð við taka sverðinu og kveðst eigi kunna sverð að gera ef þetta bilar. Sigurður hjó í steðjann og klauf niður í fótinn og brast eigi né brotnaði. Hann lofaði sverðið mjög og fór til árinnar með ullarlagð og kastar í gegn straumi og tók í sundur er hann brá við sverðinu. Gekk Sigurður þá glaður heim.
Reginn mælti: "Efna munið þér heit yðar nú, er eg hefi gert sverðið, og hitta Fáfni."
Sigurður svarar: "Efna munum vér og þó annað fyrr, að hefna föður míns."
Sigurður var því ástsælli, sem hann var eldri, af öllu fólki svo að hvert barn unni honum hugástum.
16. Sigurður fann Grípi
Grípir hét maður og var móðurbróðir Sigurðar. En litlu síðar en sverðið var gert, fór hann á fund Grípis því að hann var framvís og vissi fyrir örlög manna. Sigurður leitar eftir hversu ganga mun ævi hans. En hann var þó lengi fyrir og sagði þó loksins, við ákaflega bæn Sigurðar, öll forlög hans eftir því sem eftir gekk síðan.
Og þá er Grípir hafði þessa hluti sagða, sem hann beiddi, þá reið hann heim.
Og brátt eftir það finnast þeir Reginn. Þá mælti hann: "Drep Fáfni sem þér hétuð."
Sigurður svarar: "Gera skal það og þó annað fyrr, að hefna Sigmundar konungs og annarra frænda vorra er þar féllu í þeirri orrustu."
17. Sigurður hefndi föður síns
Nú hittir Sigurður konunga og mælti til þeirra: "Hér höfum vér verið um hríð og eigum vér yður ástsemd að launa og mikla virðing. En nú viljum vér úr landi fara og finna Hundingssonu og vildi eg að þeir vissu að Völsungar væru eigi allir dauðir. Viljum vér hafa þar til yðarn styrk."
Konungar kváðust allt vilja til fá það er hann beiddist.
Er nú búið lið mikið og allt vandað sem mest, skip og allur herbúnaður, svo að hans ferð væri þá veglegri en áður. Sigurður stýrir dreka þeim er mestur var og ágætlegastur. Segl þeirra voru mjög vönduð og ítarleg að sjá. Sigla þeir nú góðan byr. Og er fá dægur voru liðin þá kom á veður mikið með stormi en svo var sjárinn sem í roðru sæi. Eigi bað Sigurður svipta seglunum þótt rifnuðu heldur bað hann hærra setja en áður.
Og er þeir sigldu fram fyrir bergnös nokkura þá kallaði maður upp á skipið og spyr hver fyrir liðinu eigi að ráða. Honum var sagt að þar var höfðingi Sigurður Sigmundarson er nú er frægstur ungra manna.
Maðurinn svarar: "Allir segja þar eitt frá honum að eigi megi konungasynir jafnast við hann. Vildi eg að þér fellduð seglin á nokkuru skipinu og tækjuð þér við mér." Þeir spurðu hann að nafni. Hann svarar:
"Hnikar hétu mig,
þá er eg Hugin gladdi,
Völsungr ungi,
og vegið hafði.
Nú máttu kalla
karl af bjargi
Feng eða Fjölni,
far vil eg þiggja."
Þeir viku að landi og tóku karl á skip sín. Þá tók af veðrið, og fara uns þeir koma að landi í ríki Hundingssona. Þá hvarf Fjölnir.
Þeir láta þegar geisa eld og járn, drepa menn en brenna byggðina og eyða þar sem þeir fara. Stökkur fjöldi undan á fund Lyngva kóngs og segja að her er kominn í landið og fer með meira geysingi en dæmi finnist til. Kváðu Hundingssonu eigi langsýna þá er þeir sögðust eigi mundu hræðast Völsunga: "En nú stýrir þessum her Sigurður Sigmundarson."
Lyngvi konungur lætur nú fara um allt ríki sitt herboð, vill eigi á flótta leggjast, stefnir til sín öllum þeim mönnum er honum vilja lið veita. Kemur nú á mót Sigurði með allmikinn her og bræður hans með honum. Tekst þar hin harðasta orrusta með þeim. Mátti þar á lofti sjá mart spjót og örvar margar, öxi hart reidda, skjöldu klofna og brynjur slitnar, hjálma skýfða, hausa klofna og margan mann steypast til jarðar.
Og er orrustan hefir svo staðið mjög langa hríð sækir Sigurður fram um merkin og hefir í hendi sverðið Gram. Hann höggur bæði menn og hesta og gengur í gegnum fylkingar og hefir báðar hendur blóðgar til axlar, og stökk undan fólk þar sem hann fór og helst hvorki við hjálmur né brynja og engi maður þóttist fyrr séð hafa þvílíkan mann.
Þessi orrusta stóð lengi með miklu mannfalli og ákafri sókn. Fer þar sem sjaldnar kann henda þá er landherinn sækir til, að það kom fyrir ekki. Féll þar svo mart fyrir Hundingssonum að engi maður vissi töl á. Og er Sigurður var framarla í fylkingu. Þá koma á mót honum synir Hundings konungs. Sigurður höggur til Lyngva konungs og klýfur hjálm hans og höfuð og brynjaðan búk, og síðan höggur hann Hjörvarð bróður hans sundur tvo hluti, og þá drap hann alla Hundingssonu er eftir lifðu og mestan hluta liðs þeirra.
Fer Sigurður nú heim með fögrum sigri og miklu fé og ágæti er hann hafði fengið í þessi ferð. Voru nú veislur gervar í mót honum heima í ríkinu.
Og er Sigurður hefir skamma stund heima verið, kemur Reginn að máli við Sigurð og segir: "Nú munuð þér vilja steypa hjálminum Fáfnis, svo sem þér hétuð, því að nú hefir þú hefnt föður þíns og annarra frænda þinna."
Sigurður svarar: "Efna munum vér það sem vér höfum þar um heitið og ekki fellur oss það úr minni."
18. Frá vígi Fáfnis
Nú ríða þeir Sigurður og Reginn upp á heiðina á þann farveg er Fáfnir var vanur að skríða er hann fór til vatns, og það er sagt að sá hamar var þrítugur, er hann lá að vatni þá er hann drakk.
Þá mælti Sigurður: "Það sagðir þú, Reginn, að dreki sjá væri eigi meiri en einn lyngormur en mér sýnast vegar hans æfar miklir."
Reginn mælti: "Ger gröf eina og sest þar í. Og þá er ormurinn skríður til vatns, legg þá til hjarta honum og vinn honum svo bana. Þar fyrir færð þú mikinn frama."
Sigurður mælti: "Hversu mun þá veita ef eg verð fyrir sveita ormsins?"
Reginn svarar: "Eigi má þér ráð ráða er þú ert við hvat vetna hræddur og ertu ólíkur þínum frændum að hughreysti."
Nú ríður Sigurður á heiðina en Reginn hverfur á brott yfrið hræddur. Sigurður gerði gröf eina. Og er hann er að þessu verki kemur að honum einn gamall maður með síðu skeggi og spyr hvað hann gerir þar. Hann segir.
Þá svarar hinn gamli maður: "Þetta er óráð. Ger fleiri grafar og lát þar í renna sveitann. En þú sit í einni og legg til hjartans orminum."
Þá hvarf sá maður á brottu. En Sigurður gerir grafar eftir því sem fyrir var sagt.
Og er ormurinn skreið til vatns varð mikill landskjálfti svo að öll jörð skalf í nánd. Hann fnýsti eitri alla leið fyrir sig fram og eigi hræddist Sigurður né óttast við þann gný. Og er ormurinn skreið yfir gröfina þá leggur Sigurður sverðinu undir bægslið vinstra svo að við hjöltum nam. Þá hleypur Sigurður upp úr gröfinni og kippir að sér sverðinu og hefir allar hendur blóðgar upp til axlar. Og er hinn mikli ormur kenndi síns banasárs þá laust hann höfðinu og sporðinum svo að allt brast í sundur er fyrir varð.
Og er Fáfnir fékk banasár spurði hann: "Hver ertu eða hver er þinn faðir eða hver er ætt þín, er þú varst svo djarfur að þú þorir að bera vopn á mig?"
Sigurður svarar: "Ætt mín er mönnum ókunnug. Eg heiti göfugt dýr og á eg engan föður né móður og einn saman hefi eg farið."
Fáfnir svarar: "Ef þú átt engan föður né móður, af hverju undri ertu þá alinn? Og þótt þú segir mér eigi þitt nafn á banadægri mínu þá veistu að þú lýgur nú."
Hann svarar: "Eg heiti Sigurður en faðir minn Sigmundur."
Fáfnir svarar: "Hver eggjaði þig þessa verks eða hví léstu að eggjast? Hafðir þú eigi frétt það hversu allt fólk er hrætt við mig og við minn ægishjálm? Hinn fráneygi sveinn, þú áttir föður snarpan."
Sigurður svarar: "Til þessa hvatti mig hinn harði hugur, og stoðaði til að gert yrði þessi hin sterka hönd og þetta hið snarpa sverð er nú kenndir þú. Og fár er gamall harður ef hann er í bernsku blautur."
Fáfnir segir: "Veit eg, ef þú vex upp með frændum þínum, að þú mundir kunna að vega reiður. En þetta er meiri furða, er einn bandingi hertekinn skal þorað hafa að vega að mér því að fár hernuminn er frækn til vígs."
Sigurður mælti: "Bregður þú mér að eg væri fjarri mínum frændum? En þótt eg væri hernuminn þá var eg þó eigi heftur og það fannstu að eg var laus."
Fáfnir svarar: "Heiftyrði tekur þú hvetvetna því er eg mæli. En gull þetta mun þér að bana verða, er eg hefi átt."
Sigurður svarar: "Hver vill fé hafa allt til hins eina dags, en eitt sinn skal hver deyja."
Fáfnir mælti: "Fátt vilt þú að mínum dæmum gera. En drukkna muntu ef þú ferð um sjá óvarlega og bíð heldur á landi uns logn er."
Sigurður mælti: "Seg þú það, Fáfnir, ef þú ert fróður mjög: Hverjar eru þær nornir er kjósa mögu frá mæðrum?"
Fáfnir svarar: "Margar eru þær og sundurlausar. Sumar eru ásaættar, sumar eru álfaættar, sumar eru dætur Dvalins."
Sigurður mælti: "Hve heitir sá hólmur er blanda hjörlegi Surtur og æsir saman?"
Fáfnir svarar: "Hann heitir Óskaptur."
Og enn mælti Fáfnir: "Reginn bróðir minn veldur mínum dauða og það hlægir mig er hann veldur og þínum dauða og fer þá sem hann vildi."
Enn mælti Fáfnir: "Eg bar ægishjálm yfir öllu fólki síðan eg lá á arfi míns bróður. Og svo fnýsti eg eitri alla vega frá mér í brott að engi þorði að koma í nánd mér og engi vopn hræddist eg og aldrei fann eg svo margan mann fyrir mér að eg þættist eigi miklu sterkari, en allir voru hræddir við mig."
Sigurður mælti: "Sá ægishjálmur, er þú sagðir frá, gefur fáum sigur því að hver sá er með mörgum kemur má það finna eitthvert sinn að engi er einna hvatastur."
Fáfnir svarar: "Það ræð eg þér að þú takir hest þinn og ríðir á brott sem skjótast, því að það hendir oft að sá er banasár fær, hefnir sín sjálfur."
Sigurður svarar: "Þetta eru þín ráð en annað mun eg gera. Eg mun ríða til þíns bóls og taka þar það hið mikla gull er frændur þínir hafa átt."
Fáfnir svarar: "Ríða muntu þar til er þú finnur svo mikið gull að ærið er um þína daga. Og það sama gull verður þinn bani og hvers annars er það á."
Sigurður stóð upp og mælti: "Heim mundi eg ríða þótt eg missti þessa hins mikla fjár ef eg vissi að eg skyldi aldrei deyja. En hver frækn maður vill fé ráða allt til hins eina dags. En þú, Fáfnir, ligg í fjörbrotum þar er þig Hel hafi."
Og þá deyr Fáfnir.
19. Sigurður eignaðist Fáfnisarf
Eftir þetta kom Reginn til Sigurðar og mælti: "Heill, herra minn. Mikinn sigur hefir þú unnið er þú hefir drepið Fáfni, er engi varð fyrr svo djarfur að á hans götu þorði sitja, og þetta fremdarverk mun uppi meðan veröldin stendur."
Nú stendur Reginn og sér niður í jörðina langa hríð. Og þegar eftir þetta mælti hann af miklum móði: "Bróður minn hefir þú drepið og varla má eg þessa verks saklaus vera."
Nú tekur Sigurður sitt sverð Gram og þerrir á grasinu og mælti til Regins: "Fjarri gekkst þú þá er eg vann þetta verk og eg reyndi þetta snarpa sverð með minni hendi, og mínu afli atti eg við orms megin meðan þú lást í einum lyngrunni og vissir þú eigi hvort eð var, himinn eða jörð."
Reginn svarar: "Þessi ormur mætti lengi liggja í sínu bóli ef eigi hefðir þú notið sverðs þess er eg gerði þér minni hendi, og eigi hefðir þú þetta enn unnið og engi annarra."
Sigurður svarar: "Þá er menn koma til vígs, þá er manni betra gott hjarta en hvasst sverð."
Þá mælti Reginn við Sigurð af áhyggju mikilli: "Þú drapst minn bróður og varla má eg þessa verks saklaus."
Þá skar Sigurður hjartað úr orminum með því sverði er Riðill hét.
Þá drakk Reginn blóð Fáfnis og mælti: "Veit mér eina bæn, er þér er lítið fyrir. Gakk til elds með hjartað og steik og gef mér að eta."
Sigurður fór og steikti á teini. Og er freyddi úr þá tók hann fingri sínum á og skynjaði hvort steikt væri. Hann brá fingrinum í munn sér. Og er hjartablóð ormsins kom á tungu honum þá skildi hann fuglarödd.
Hann heyrði að igður klökuðu á hrísinu hjá honum: "Þar situr þú Sigurður og steikir Fáfnis hjarta. Það skyldi hann sjálfur eta. Þá mundi hann verða hverjum manni vitrari."
Önnur segir: "Þar liggur Reginn og vill véla þann sem honum trúir."
Þá mælti hin þriðja: "Höggvi hann þá höfuð af honum og má hann þá ráða gullinu því hinu mikla einn."
Þá mælti hin fjórða: "Þá væri hann vitrari ef hann hefði það sem þær höfðu ráðið honum og riði síðan til bóls Fáfnis og tæki það hið mikla gull er þar er. Og riði síðan upp á Hindarfjall þar sem Brynhildur sefur og mun hann nema þar mikla speki. Og þá væri hann vitur ef hann hefði yðar ráð og hygði hann um sína þurft, og þar er mér úlfsins von er eg eyrun sá."
Þá mælti hin fimmta: "Eigi er hann svo horskur sem eg ætla ef hann vægir honum en drepið áður bróður hans."
Þá mælti hin sjötta: "Það væri snjallræði ef hann dræpi hann og réði einn fénu."
Þá mælti Sigurður: "Eigi munu þau ósköp að Reginn sé minn bani og heldur skulu þeir fara báðir bræður einn veg." Bregður nú sverðinu Gram og höggur höfuð af Regin.
Og eftir þetta etur hann suman hlut hjartans ormsins en sumt hirðir hann. Hleypur síðan á hest sinn og reið eftir slóð Fáfnis og til hans herbergis og fann að það var opið, og af járni hurðirnar allar og þar með allur dyraumbúningurinn og af járni allir stokkar í húsinu, og grafið í jörð niður. Sigurður fann þar stórmikið gull og sverðið Hrotta, og þar tók hann ægishjálm og gullbrynjuna og marga dýrgripi. Hann fann þar svo mikið gull að honum þótti von að eigi mundi meira bera tveir hestar eða þrír. Það gull tekur hann allt og ber í tvær kistur miklar, tekur nú í tauma hestinum Grana. Hesturinn vill nú eigi ganga og ekki tjár að keyra. Sigurður finnur nú hvað hesturinn vill. Hleypur hann á bak og lýstur hann sporum og rennur sjá hestur sem laus væri.
20. Fundur Sigurðar og Brynhildar
Sigurður ríður nú langar leiðir og allt til þess er hann kemur upp á Hindarfjall og stefndi á leið suður til Frakklands. Á fjallinu sá hann fyrir sér ljós mikið sem eldur brynni og ljómaði af til himins. En er hann kom að, stóð þar fyrir honum skjaldborg og upp úr merki. Sigurður gekk í skjaldborgina og sá að þar svaf maður og lá með öllum hervopnum. Hann tók fyrst hjálminn af höfði honum og sá að það var kona. Hún var í brynju og var svo föst sem hún væri holdgróin. Þá reist hann ofan úr höfuðsmátt og í gegnum niður og svo út í gegnum báðar ermar, og beit sem klæði. Sigurður kvað hana helsti lengi sofið hafa.
Hún spurði hvað svo var máttugt er beit brynjuna "og brá mínum svefni. Eða mun hér kominn Sigurður Sigmundarson er hefir hjálm Fáfnis og hans bana í hendi?"
Þá svarar Sigurður: "Sá er Völsungaættar er þetta verk hefir gert, og það hefi eg spurt að þú ert ríks konungs dóttir og það sama hefir oss sagt verið frá yðrum vænleik og vitru, og það skulum vér reyna."
Brynhildur segir að tveir konungar börðust: "Hét annar Hjálmgunnar, hann var gamall og hinn mesti hermaður og hafði Óðinn honum sigri heitið, en annar Agnar eða Auðabróðir. Eg felldi Hjálmgunnar í orrustu en Óðinn stakk mig svefnþorni í hefnd þess og kvað mig aldrei síðan skyldi sigur hafa og kvað mig giftast skulu. En eg strengdi þess heit þar í mót að giftast engum þeim er hræðast kynni."
Sigurður mælti: "Kenn oss ráð til stórra hluta."
Hún svarar: "Þér munuð betur kunna. En með þökkum vil eg kenna yður ef það er nokkuð er vér kunnum, það er yður mætti líka, í rúnum eða öðrum hlutum er liggja til hvers hlutar. Og drekkum bæði saman og gefi goðin okkur góðan dag, að þér verði nyt og frægð að mínum viturleik og þú munir eftir það er við ræðum."
Brynhildur fyllti eitt ker og færði Sigurði og mælti:
"Bjór færi eg þér,
brynþinga valdr,
magni blandinn
og megintíri.
Fullur er ljóða
og líknstafa,
góðra galdra
og gamanræðna.
Sigrúnar skaltu kunna,
ef þú vilt snotr vera,
og rista á hjalti hjörs,
á véttrimum
og á valböstum
og nefna tvisvar Tý.
Brimrúnar skaltu gera
ef þú vilt borgið hafa
á sundi seglmörum.
Á stafni skal þær rista
og á stjórnarblaði
og leggja eld í ár.
Fellrat svo brattr breki
né blár unnir,
þó kemstu heill af hafi.
Málrúnar skaltu kunna
ef þú vilt að manngi þér
heiftum gjaldi harm.
Þær um vindr,
þær um vefr,
þær um setr allar saman,
á því þingi
er þjóðir skulu
í fulla dóma fara.
Ölrúnar skaltu kunna,
ef þú vilt að annars kvon
véli þig eigi í tryggð, ef þú trúir.
Á horni skal þær rista
og á handarbaki
og merkja á nagli Nauð.
Full skaltu signa
og við fári sjá
og verpa lauk í lög.
Þá eg það veit,
að þér verðr aldrei
meinblandinn mjöðr.
Bjargrúnar skaltu nema,
ef þú vilt borgið fá
og leysa kind frá konu.
Á lófa skal þær rista
og um liðu spenna
og biðja dísir duga.
Limrúnar skaltu kunna,
ef þú vilt læknir vera
og kunna sár að sjá.
Á berki skal þær rista
og á barri viðar,
þess er lúti austur limar.
Hugrúnar skaltu nema,
ef þú vilt hverjum vera
geðhorskari guma.
Þær of réð,
þær of reist,
þær of hugði Hroptr.
Á skildi voru ristnar,
þeim er stendr fyrir skínanda guði,
á eyra Árvakrs
og á Alsvinns höfði
og á því hveli er stendr
undir reið Rungnis,
á Sleipnis taumum
og á sleða fjötrum,
á bjarnar hrammi
og á Braga tungu,
á úlfs klóm
og á arnar nefi,
á blóðgum vængjum
og á brúar sporði,
á lausnar lófa
og á líknar spori,
á gleri og á gulli
og á góðu silfri,
í víni og í virtri
og á völu sessi,
í guma holdi
og Gaupnis oddi
og á gýgjar brjósti,
á nornar nagli
og á nefi uglu.
Allar voru af skafnar,
þær er á voru ristnar,
og hrærðar við hinn helga mjöð
og sendar á víða vegu.
Þær eru með álfum,
sumar með ásum
og með vísum vönum,
sumar hafa mennskir menn.
Það eru bókrúnar
og bjargrúnar
og allar ölrúnar
og mærar meginrúnar,
hverjum er þær kná óvilltar
og óspilltar
sér að heillum hafa.
Njóttu, ef þú namst,
uns rjúfast regin.
Nú skaltu kjósa
alls þér er kostr of boðinn,
hvassa vopna hlynur.
Sögn eða þögn
haf þú þér sjálfur of hug.
Öll eru mál of metin."
Sigurður svarar:
"Munkat eg flýja,
þótt mig feigan vitir,
emkat eg með bleyði borinn.
Ástráð þín
vil eg öll of hafa
svo lengi sem eg lifi."
21. Frá heilræðum Brynhildar
Sigurður mælti: "Aldrei finnst þér vitrari kona í veröldu og kenn enn fleiri spekiráð."
Hún svarar: "Heimilt er það að gera að yðrum vilja og gefa heilræði fyrir yðra eftirleitan og viturleik."
Þá mælti hún: "Ver vel við frændur þína og hefn lítt mótgerða við þá og ber við þol og tekur þú þar við langælegt lof. Sjá við illum hlutum, bæði við meyjar ást og manns konu, þar stendur oft illt af. Verð lítt mishugi við óvitra menn á fjölmennum mótum. Þeir mæla oft verra en þeir viti, og ertu þegar bleyðimaður kallaður og ætla að þú sért sönnu sagður. Drep hann annars dags og gjald honum svo heiftyrði. Ef þú ferð þann veg er vondar vættir byggja, ver var um þig. Tak þér ekki herbergi nær götu þótt þig nátti, því að oft búa þar illar vættir, þær menn villa. Lát eigi tæla þig fagrar konur þótt þú sjáir að veislum svo að það standi þér fyrir svefni eða þú fáir af því hugarekka. Teyg þær ekki að þér með kossum eða annarri blíðu. Og ef þú heyrir heimsleg orð drukkinna manna, deil eigi við þá er víndrukknir eru og tapa viti sínu. Slíkir hlutir verða mörgum að miklum móðtrega eða bana. Berst h eldur við óvini þína en þú sért brenndur. Og sver eigi rangan eið því að grimm hefnd fylgir griðrofi. Ger rækilega við dauða menn, sóttdauða eða sædauða eða vopndauða. Búðu vandlega um lík þeirra. Og trú ekki þeim er þú hefir felldan fyrir föður eða bróður eða annan náfrænda, þótt ungur sé. Oft er úlfur í ungum syni. Sjá vandlega við vélráðum vina þinna. En lítt megum vér sjá fyrir um yðart líf, en eigi skyldi mágahatur á þig koma."
Sigurður mælti: "Engi finnst þér vitrari maður og þess sver eg að þig skal eg eiga og þú ert við mitt æði."
Hún svarar: "Þig vil eg helst eiga þótt eg kjósi um alla menn."
Og þetta bundu þau eiðum með sér.
22. Lýsing Sigurðar Fáfnisbana
Nú ríður Sigurður á brott. Hans skjöldur var markaður og laugaður í rauðu gulli og skrifaður á einn dreki. Hann var dökkbrúnaður hið efra en fagurrauður hið neðra og þann veg var markaður hans hjálmur og söðull og vopnrokkur. Hann hafði gullbrynjuna og öll hans vopn voru gulli búin. Og því var dreki markaður á hans vopnum öllum, að er hann er sénn, má vita hver þar fer, af öllum þeim er frétt hafa að hann drap þann mikla dreka er Væringjar kalla Fáfni. Og fyrir því eru vopn hans öll gulli búin og brún að lit, að hann er langt umfram aðra menn að kurteisi og allri hæversku og nálega að öllum hlutum. Og þá er taldir eru allir hinir stærstu kappar og hinir ágætustu höfðingjar þá mun hann jafnan fremstur taldur, og hans nafn gengur í öllum tungum fyrir norðan Grikklandshaf og svo mun vera meðan veröldin stendur.
Hár hans var brúnt að lit og fagurt að líta og fór í stórlokka. Skeggið var þykkt og skammt og með sama lit. Hánefjaður var hann og hafði breitt andlit og stórbeinótt. Augu hans voru svo snör að fár einn þorði að líta undir hans brún. Herðar hans voru svo miklar sem tveir menn væri á að sjá. Hans líkami var skapaður allur við sig á hæð og digurleik og þann veg sem best má sama. Og er það mark um hans hæð að þá er hann gyrti sig sverðinu Gram, en það var sjö spanna hátt, og er hann óð rúgakurinn fullvaxinn þá tók niður döggskórinn á sverðinu akurinn uppstandanda. Og hans afl er meira en vöxtur. Vel kann hann sverði að beita og spjóti að skjóta og skafti að verpa og skildi að halda, boga að spenna eða hesti að ríða, og margskonar kurteisi nam hann í æsku.
Hann var vitur maður svo að hann vissi fyrir óorðna hluti. Hann skildi fuglsrödd. Og af slíkum hlutum komu honum fáir hlutir á óvart. Hann var langtalaður og málsnjallur svo að ekki tók hann það erindi að mæla, að hann mundi fyrr hætta en svo sýnist öllum sem enga leið muni eiga að vera nema svo sem hann segir. Og það er hans skemmtan að veita lið sínum mönnum og reyna sjálfan sig í stórræðum og taka fé af sínum óvinum og gefa sínum vinum. Eigi skorti hann hug og aldrei varð hann hræddur.
23. Sigurður dvaldist með Heimi
Sigurður ríður nú þar til er hann kemur að einum miklum bæ. Þar réð fyrir einn mikill höfðingi sá er Heimir hét. Hann átti systur Brynhildar er Bekkhildur hét, því að hún hafði heima verið og numið hannyrði. En Brynhildur fór með hjálm og brynju og gekk að vígum, var hún því kölluð Brynhildur. Heimir og Bekkhildur áttu einn son er Alsvinnur hét, manna kurteisastur. Þar léku menn úti.
Og er þeir sjá reið mannsins að bænum, hætta þeir leiknum og undrast manninn því að þeir höfðu engan slíkan séð. Gengu í mót honum og fögnuðu honum vel. Alsvinnur býður honum með sér að vera og af sér að þiggja slíkt er hann vill. Hann þiggur það. Honum er og skipað veglega að þjóna. Fjórir menn hófu gullið af hestinum en fimmti tók við honum. Þar mátti sjá marga góða gripi og fáséna. Var það að skemmtan haft að sjá brynjur og hjálma og stóra hringa og undarlega mikil gullstaup og allskonar hervopn.
Sigurður dvelst þar lengi í mikilli sæmd. Spyrst nú þetta frægðarverk um öll lönd, er hann hafði drepið þann hinn ógurlega dreka. Þeir undu sér nú vel og var hvor öðrum hollur. Það höfðu þeir sér að skemmtan að búa vopn sín og skepta örvar sínar og beita haukum sínum.
24. Fundur Sigurðar og Brynhildar
Þá var heim komin til Heimis Brynhildur fóstra hans. Hún sat í einni skemmu við meyjar sínar. Hún kunni meira hagleik en aðrar konur. Hún lagði sinn borða með gulli og saumaði á þau stórmerki er Sigurður hafði gert, dráp ormsins og upptöku fjárins og dauða Regins.
Og einn dag er frá því sagt að Sigurður reið á skóg við hundum sínum og haukum og miklu fjölmenni. Og er hann kom heim, fló hans haukur á hávan turn og settist við einn glugg. Sigurður fór eftir haukinum. Þá sér hann eina fagra konu og kennir að þar er Brynhildur. Honum þykir um vert allt saman, fegurð hennar og það er hún gerir, kemur í höllina og vill önga skemmtan við menn eiga.
Þá mælti Alsvinnur: "Hví eruð þér svo fálátir? Þessi skipan þín harmar oss og þína vini. Eða hví máttu eigi gleði halda? Haukar þínir hnípa og svo hesturinn Grani og þessa fáum vér seint bót."
Sigurður svarar: "Góður vinur, heyr hvað eg hugsa. Minn haukur fló á einn turn og er eg tók hann sá eg eina fagra konu. Hún sat við einn gullegan borða og las þar á mín liðin og framkomin verk."
Alsvinnur svarar: "Þú hefir séð Brynhildi Buðladóttur, er mestur skörungur er."
Sigurður svarar: "Það mun satt vera. Eða hversu kom hún hér?"
Alsvinnur svarar: "Þess var skammt í milli og þér komuð."
Sigurður segir: "Það vissum vér fyrir fáum dögum. Sú kona hefir oss best sýnst í veröldu."
Alsvinnur mælti: "Gef ekki gaum að einni konu, þvílíkur maður. Er það illt að sýta er maður fær eigi."
"Hana skal eg hitta," sagði Sigurður, "og gefa henni gull og ná hennar gamni og jafnaðarþokka."
Alsvinnur svarar: "Engi fannst sá enn um aldur er hún léði rúms hjá sér eða gæfi öl að drekka. Hún vill sig í herskap hafa og allskonar frægð að fremja."
Sigurður mælti: "Vér vitum eigi hvort hún svarar oss eða eigi, eða lér oss sess hjá sér."
Og annan dag eftir gekk Sigurður til skemmunnar. En Alsvinnur stóð hjá skemmunni úti og skefti örvar sínar.
Sigurður mælti: "Sit heil, frú, eða hversu megið þér?"
Hún svarar: "Vel megum vér. Frændur lifa og vinir, en háttung er í hverja giftu menn bera til síns endadags."
Hann sest hjá henni. Síðan ganga þar inn fjórar konur með stórum borðkerum af gulli og með hinu besta víni og standa fyrir þeim.
Þá mælti Brynhildur: "Þetta sæti mun fáum veitt vera nema faðir minn komi."
Hann svarar: "Nú er veitt þeim er oss líkar."
Herbergið var tjaldað af hinum dýrstum tjöldum og þakið klæðum allt gólfið.
Sigurður mælti: "Nú er það fram komið er þér hétuð oss."
Hún svarar: "Þér skuluð hér velkomnir."
Síðan reis hún upp og fjórar meyjar með henni og gekk fyrir hann með gullker og bað hann drekka. Hann réttir í mót höndina kerinu og tók hönd hennar með og setti hana hjá sér.
Hann tók um háls henni og kyssti hana og mælti: "Engi kona hefir þér fegri fæðst."
Brynhildur mælti: "Viturlegra ráð er það að leggja eigi trúnað sinn á konu vald því að þær rjúfa jafnan sín heit."
Hann mælti: "Sá kæmi bestur dagur yfir oss að vér mættum njótast."
Brynhildur svarar: "Eigi er það skipað að við búum saman. Eg em skjaldmær og á eg með herkonungum hjálm og þeim mun eg að liði verða, og ekki er mér leitt að berjast."
Sigurður svarar: "Þá frjóumst vér mest ef vér búum saman, og meira er að þola þann harm er hér liggur á en hvöss vopn."
Brynhildur svarar: "Eg mun kanna lið hermanna en þú munt eiga Guðrúnu Gjúkadóttur."
Sigurður svarar: "Ekki tælir mig eins konungs dóttir og ekki lér mér tveggja huga um þetta, og þess sver eg við guðin að eg skal þig eiga eða enga konu ella."
Hún mælti slíkt.
Sigurður þakkar henni þessi ummæli og gaf henni gullhring og svörðu nú eiða af nýju og gengur hann í brott til sinna manna og er þar um hríð með miklum blóma.
25. Viðræður Guðrúnar og Brynhildar
Gjúki hét konungur. Hann hafði ríki fyrir sunnan Rín. Hann átti þrjá sonu er svo hétu: Gunnar, Högni, Guttormur. Guðrún hét dóttir hans. Hún var frægst mær. Báru þau börn mjög af öðrum konungabörnum um alla atgervi, bæði um vænleik og vöxt. Þeir voru jafnan í hernaði og unnu mörg ágætisverk. Gjúki átti Grímhildi hina fjölkunnugu.
Buðli hét konungur. Hann var ríkari en Gjúki, og þó báðir ríkir. Atli hét bróðir Brynhildar. Atli var grimmur maður, mikill og svartur og þó tígulegur, og hinn mesti hermaður.
Grímhildur var grimmhuguð kona.
Ráð Gjúkunga stóð með miklum blóma og mest fyrir sakir barna hans er mjög voru umfram flesta.
Eitt sinn segir Guðrún meyjum sínum að hún má eigi glöð vera. Ein kona spyr hana hvað henni sé að ógleði.
Hún svarar: "Eigi fengum vér tíma í draumum. Er því harmur í hjarta mér. Ráð drauminn, þar er þú fréttir eftir."
Hún svarar: "Seg mér og lát þig eigi hryggja því að jafnan dreymir fyrir veðrum."
Guðrún svarar: "Þetta er ekki veður. Það dreymdi mig að eg sá einn fagran hauk mér á hendi. Fjaðrar hans voru með gullegum lit."
Konan svarar: "Margir hafa spurt af yðrum vænleik, visku og kurteisi. Nokkurs konungs son mun biðja þín."
Guðrún svarar: "Engi hlutur þótti mér haukinum betri og allt mitt fé vildi eg heldur láta en hann."
Konan svarar: "Sá er þú færð mun vera vel menntur og muntu unna honum mikið."
Guðrún svarar: "Það angrar mig að eg veit eigi hver hann er, og skulum vér hitta Brynhildi. Hún mun vita."
Þær bjuggust með gulli og mikilli fegurð og fóru með meyjum sínum uns þær komu að höll Brynhildar. Sú höll var búin með gulli og stóð á einu bergi. Og er sén er ferð þeirra þá er Brynhildi sagt að margar konur óku að borginni með gylltum vögnum.
"Þar mun vera Guðrún Gjúkadóttir," segir hún. "Mig dreymdi um hana í nótt, og göngum út í mót henni. Ekki sækja oss fríðari konur heim."
Þær gengu út í móti þeim og fögnuðu vel. Þær gengu inn í þá hina fögru höll. Salurinn var skrifaður innan og mjög silfri búinn. Klæði voru breidd undir fætur þeim og þjónuðu allir þeim. Þær höfðu margskonar leika. Guðrún var fáorð.
Brynhildur mælti: "Hví megið þér eigi gleði bella? Ger eigi það. Skemmtum oss allar saman og ræðum um ríka konunga og þeirra stórvirki."
"Gerum það," segir Guðrún. "Eða hverja veistu fremsta konunga verið hafa?"
Brynhildur svarar: "Sonu Hámundar, Haka og Hagbarð. Þeir unnu mörg frægðarverk í hernaði."
Guðrún svarar: "Miklir voru þeir og ágætir, en þó nam Sigar systur þeirra en hefir aðra inni brennda og eru þeir seinir að hefna. Eða hví nefndir þú eigi bræður mína er nú þykja fremstir menn?"
Brynhildur segir: "Það er í góðum efnum en eigi eru þeir enn mjög reyndir og veit eg einn mjög af þeim bera en það er Sigurður son Sigmundar konungs. Hann var þá barn er hann drap sonu Hundings konungs og hefndi föður síns og Eylima móðurföður síns."
Guðrún mælti: "Hvað var til merkja um það? Segir þú hann borinn þá er faðir hans féll?"
Brynhildur svarar: "Móðir hans gekk í valinn og fann Sigmund konungs sáran og bauð að binda sár hans en hann kveðst of gamall síðan að berjast, en bað hana við það huggast að hún mundi æðstan son ala og var þar spá spaks geta. Og eftir andlát Sigmundar konungs fór hún með Álfi konungi og var Sigurður þar upp fæddur í mikilli virðingu og vann hann mörg afreksverk á hverjum degi og er hann ágætastur maður í veröldu."
Guðrún mælti: "Af ást hefir þú fréttum til hans haldið. En af því kom eg hér að segja þér drauma mína er mér fengu mikillar áhyggju."
Brynhildur svarar: "Lát þig eigi slíkt angra. Ver með frændum þínum er allir vilja þig gleðja."
"Það dreymdi mig," sagði Guðrún, "að vér gengum frá skemmu margar saman og sáum einn mikinn hjört. Hann bar langt af öðrum dýrum. Hár hans var af gulli. Vér vildum allar taka dýrið en eg ein náði. Dýrið þótti mér öllum hlutum betra. Síðan skaustu dýrið fyrir knjám mér. Var mér það svo mikill harmur að eg mátti trautt bera. Síðan gafstu mér einn úlfhvelp. Sá dreifði mig blóði bræðra minna."
Brynhildur svarar: "Eg mun ráða sem eftir mun ganga. Til ykkar mun koma Sigurður, sá er eg kaus mér til manns. Grímhildur gefur honum meinblandinn mjöð, er öllum oss kemur í mikið stríð. Hann muntu eiga og hann skjótt missa. Þú munt eiga Atla konung. Missa muntu bræðra þinna og þá muntu Atla vega."
Guðrún svarar: "Ofurharmur er oss það að vita slíkt."
Og fara þær nú í brott og heim til Gjúka konungs.
26. Sigurður fékk Guðrúnar
Sigurður ríður nú í brott með það mikla gull. Skiljast þeir nú vinir. Hann ríður Grana með öllum sínum herbúnaði og farmi. Hann ríður þar til er hann kom að höll Gjúka konungs. Ríður nú í borgina.
Og það sér einn af konungsmönnum og mælti: "Það hygg eg að hér fari einn af goðunum. Þessi maður er allur við gull búinn. Hestur hans er miklu meiri en aðrir hestar og afburðarvænn vopnabúnaður. Hann er langt um aðra menn fram. En sjálfur ber hann þó mest af öðrum mönnum."
Konungurinn gengur út með hirð sína og kvaddi manninn og spyr: "Hver ertu er ríður í borgina, er engi þorði nema að leyfi sona minna?"
Hann svarar: "Eg heiti Sigurður og em eg son Sigmundar konungs."
Gjúki konungur mælti: "Vel skaltu hér kominn með oss og þigg hér slíkt sem þú vilt."
Og hann gengur inn í höllina og voru allir lágir hjá honum og allir þjónuðu honum og var hann þar í miklu yfirlæti.
Þeir ríða allir saman, Sigurður og Gunnar og Högni, og þó er Sigurður fyrir þeim um alla atgervi og eru þó allir miklir menn fyrir sér.
Það finnur Grímhildur hve mikið Sigurður ann Brynhildi og hve oft hann getur hennar. Hugsar fyrir sér að það væri meiri gifta að hann staðfestist þar og ætti dóttur Gjúka konungs og sá að engi mátti við hann jafnast. Sá og hvert traust að honum var, og hafði ofur fjár, miklu meira en menn vissu dæmi til. Konungur var við hann sem við sonu sína en þeir virðu hann framar en sig.
Eitt kveld er þeir sátu við drykk rís drottning upp og gekk fyrir Sigurð og kvaddi hann og mælti: "Fögnuður er oss á þinni hérvist og allt gott viljum vér til yðar leggja. Tak hér við horni og drekk."
Hann tók við og drakk af.
Hún mælti: "Þinn faðir skal vera Gjúki konungur en eg móðir, bræður þínir Gunnar og Högni og allir er eiða vinnið og munu þá eigi yðrir jafningjar fást."
Sigurður tók því vel. Og við þann drykk mundi hann ekki til Brynhildar. Hann dvaldist þar um hríð.
Og eitt sinn gekk Grímhildur fyrir Gjúka konung og lagði hendur um háls honum og mælti: "Hér er nú kominn hinn mesti kappi er finnast mun í veröldu. Væri að honum mikið traust. Gift honum dóttur þína með miklu fé og slíku ríki sem hann vill, og mætti hann hér yndi nema."
Konungur svarar: "Fátítt er það að bjóða fram dætur sínar, en meiri vegur er að bjóða honum en aðrir biðji."
Og eitt kveld skenkir Guðrún. Sigurður sér að hún er væn kona og að öllu hin kurteisasta.
Fimm misseri var Sigurður þar svo að þeir sátu með frægð og vingan, og ræðast konungar nú við.
Gjúki konungur mælti: "Mart gott veitir þú oss, Sigurður, og mjög hefir þú styrkt vort ríki."
Gunnar mælti: "Allt viljum vér til vinna að þér dveljist hér lengi, bæði ríki og vora systur með boði en eigi mundi annar fá þótt bæði."
Sigurður svarar: "Hafið þökk fyrir yðra sæmd og þetta skal þiggja."
Þeir sverjast nú í bræðralag sem þeir séu sambornir bræður. Nú er gerð ágætleg veisla og stóð marga daga. Drekkur Sigurður nú brúðlaup til Guðrúnar. Mátti þar sjá margskonar gleði og skemmtan og var hvern dag veitt öðrum betur.
Þeir fóru nú víða um lönd og vinna mörg frægðarverk, drápu marga konungasonu og engir menn gerðu slík afrek sem þeir. Fara nú heim með miklu herfangi.
Sigurður gaf Guðrúnu að eta af Fáfnis hjarta og síðan var hún miklu grimmari en áður og vitrari. Þeirra son hét Sigmundur.
Og eitt sinn gekk Grímhildur að Gunnari syni sínum og mælti: "Yðart ráð stendur með miklum blóma fyrir utan einn hlut, er þér eruð kvonlausir. Biðjið Brynhildar, það er göfgast ráð og mun Sigurður ríða með yður."
Gunnar svarar: "Víst er hún væn, og eigi em eg þessa ófús," og segir nú föður sínum og bræðrum og Sigurði, og eru allir fýsandi.
27. Sigurður reið vafurlogann
Þeir búa nú ferð sína listulega. Ríða nú fjöll og dali til Buðla konungs. Bera upp bónorðið. Hann tók því vel, ef hún vill eigi níta, og segir hana svo stóra að þann einn mann mun hún eiga er hún vill.
Þá ríða þeir í Hlymdali. Heimir fagnar þeim vel. Segir Gunnar nú erindin. Heimir kvað hennar kjör vera hvern hún skal eiga. Segir þar sal hennar skammt frá og kvaðst það hyggja, að þann einn mundi hún eiga vilja, er riði eld brennanda er sleginn er um sal hennar. Þeir finna salinn og eldinn og sjá þar borg gulli bysta og brann eldur um utan.
Gunnar reið Gota en Högni Hölkvi. Gunnar keyrir hestinn að eldinum en hann hopar.
Sigurður mælti: "Hví hopar þú Gunnar?"
Hann svarar: "Eigi vill hesturinn hlaupa þenna eld," - og biður Sigurð ljá sér Grana.
"Heimilt er það," segir Sigurður.
Gunnar ríður nú að eldinum og vill Grani eigi ganga. Gunnar má nú eigi ríða þenna eld. Skipta nú litum sem Grímhildur kenndi þeim, Sigurði og Gunnari. Síðan ríður Sigurður og hefir Gram í hendi og bindur gullspora á fætur sér. Grani hleypur fram að eldinum er hann kenndi sporans. Nú verður gnýr mikill er eldurinn tók að æsast en jörð tók að skjálfa. Loginn stóð við himin. Þetta þorði engi að gera fyrr, og var sem hann riði í myrkva. Þá lægðist eldurinn en hann gekk af hestinum inn í salinn. Svo er kveðið:
Eldr nam að æsast
en jörð að skjálfa
og hár logi
við himni gnæfa.
Fár treystist þar
fylkis rekka
eld að ríða
né yfir stíga.
Sigurðr Grana
sverði keyrði,
eldr slokknaði
fyrir öðlingi.
Logi allr lægðist
fyrir lofgjörnum,
bliku reiði
er Reginn átti.
Og er Sigurður kom inn um logann fann hann þar eitt fagurt herbergi og þar sat í Brynhildur. Hún spyr hver sá maður er. En hann nefndist Gunnar Gjúkason: "Ertu og ætluð mín kona með jáyrði föður þíns, ef eg riði þinn vafurloga, og fóstra þíns með yðru atkvæði."
"Eigi veit eg gjörla hversu eg skal þessu svara," segir hún.
Sigurður stóð réttur á gólfinu og studdist á sverðshjöltin og mælti til Brynhildar: "Þér í mót skal eg gjalda mikinn mund í gulli og góðum gripum."
Hún svarar af áhyggju af sínu sæti sem álft af báru, og hefir sverð í hendi og hjálm á höfði og var í brynju: "Gunnar," segir hún, "ræð ekki slíkt við mig nema þú sért hverjum manni fremri, og þá skaltu drepa er mín hafa beðið ef þú hefir traust til. Eg var í orrustu með Garðakonungi og voru vopn vor lituð í mannablóði og þess girnumst vér enn."
Hann svarar: "Mörg stórvirki hafið þér unnið. En minnist nú á heit yðar, ef þessi eldur væri riðinn, að þér munduð með þeim manni ganga er þetta gerði."
Hún finnur nú hér sönn svör og merki þessa máls, stendur upp og fagnar honum vel. Þar dvelst hann þrjár nætur og búa eina rekkju. Hann tekur sverðið Gram og leggur í meðal þeirra bert. Hún spyr hví það sætti. Hann kvað sér það skipað að svo gerði hann brúðlaup til konu sinnar eða fengi ella bana. Hann tók þá af henni hringinn Andvaranaut, er hann gaf henni, en fékk henni nú annan hring af Fáfnis arfi. Eftir þetta ríður hann brott í þann sama eld til sinna félaga og skipta þeir aftur litum og ríða síðan í Hlymdali og segja hve farið hafði.
Þann sama dag fór Brynhildur heim til fóstra síns og segir honum af trúnaði að til hennar kom einn konungur, "og reið minn vafurloga og kvaðst kominn til ráða við mig og nefndist Gunnar. En eg sagði að það mundi Sigurður einn gera, er eg vann eiða á fjallinu, og er hann minn frumver."
Heimir kvað nú svo búið vera mundu.
Brynhildur mælti: "Dóttur okkar Sigurðar, Áslaugu, skal hér upp fæða með þér."
Fara konungar nú heim en Brynhildur fór til föður síns. Grímhildur fagnar þeim vel og þakkar Sigurði sína fylgd. Er þar búist við veislu. Kom þar mikill mannfjöldi. Þar kom Buðli konungur með dóttur sína og Atli son hans. Og hefir þessi veisla staðið marga daga. Og er lokið er þessi veislu minnir Sigurð allra eiða við Brynhildi og lætur þó vera kyrrt. Brynhildur og Gunnar sátu við skemmtan og drukku gott vín.
28. Viðræða Guðrúnar og Brynhildar
Það er einn dag er þær gengu til árinnar Rínar að þvo sér. Þá óð Brynhildur lengra út á ána. Guðrún spyr hví það gegndi.
Brynhildur segir: "Hví skal eg um þetta jafnast við þig heldur en um annað? Eg hugði að minn faðir væri ríkari en þinn og minn maður unnið mörg snilldarverk og riði eld brennanda en þinn bóndi var þræll Hjálpreks konungs."
Guðrún svarar með reiði: "Þá værir þú vitrari ef þú þegðir en lastaðir mann minn. Er það allra manna mál að engi hafi slíkur komið í veröldina fyrir hversvetna sakir. Og eigi samir þér vel að lasta hann því að hann er þinn frumver og drap hann Fáfni og reið vafurlogann, er þú hugðir Gunnar konung, og hann lá hjá þér og tók af hendi þér hringinn Andvaranaut, og máttu nú hér hann kenna."
Brynhildur sér nú þenna hring og kennir. Þá fölnar hún sem hún dauð væri. Brynhildur fór heim og mælti ekki orð um kveldið.
Og er Sigurður kom í rekkju spyr Guðrún: "Hví er Brynhildur svo ókát?"
Sigurður svarar: "Eigi veit eg glöggt, en grunar mig að vér munum vita brátt nokkuru gerr."
Guðrún mælti: "Hví unir hún eigi auð og sælu og allra manna lofi, og fengið þann mann sem hún vildi?"
Sigurður mælti: "Hvar var hún þá er hún sagði það að hún þættist hinn æðsta eiga eða þann er hún vildi helst eiga?"
Guðrún svarar: "Eg skal eftir spyrja á morgun hvern hún vill helst eiga."
Sigurður svarar: "Þess let eg þig og iðrast muntu ef þú gerir það."
Og um morguninn sátu þær í skemmu sinni og var Brynhildur hljóð.
Þá mælti Guðrún: "Ver kát Brynhildur. Angrar þig okkart viðurtal eða hvað stendur þér fyrir gamni?"
Brynhildur svarar: "Illt eitt gengur þér til þessa og hefir þú grimmt hjarta."
"Virð eigi svo," segir Guðrún, "og seg heldur."
Brynhildur svarar: "Spyr þess eina að betur sé attú vitir, það samir ríkum konum. Og er gott góðu að una er yður gengur allt að óskum."
Guðrún svarar: "Snemmt er því enn að hæla og er þetta nokkur sú forspá. Hvað rekið þér að oss? Vér gerðum yður ekki til angurs."
Brynhildur svarar: "Þess skaltu gjalda er þú átt Sigurð og eg ann þér eigi hans að njóta né gullsins mikla."
Guðrún svarar: "Eigi vissi eg yður ummæli, og vel mætti faðir minn sjá ráð fyrir mér þóttú værir ekki að hitt."
Brynhildur svarar: "Ekki höfum vér launmæli haft og þó höfum við eiða svarið, og vissuð þér það að þér véltuð mig og þess skal hefna."
Guðrún svarar: "Þú ert betur gefin en maklegt er og þinn ofsi mun illa sjatna og þess munu margir gjalda."
"Una mundum vér," segir Brynhildur, "ef eigi ættir þú göfgari mann."
Guðrún svarar: "Áttu svo göfgan mann að óvíst er hver meiri konungur er, og gnótt fjár og ríkis."
Brynhildur svarar: "Sigurður vá að Fáfni og er það meira vert en allt ríki Gunnars konungs, svo sem kveðið er:
Sigurðr vá að ormi,
en það síðan mun
engum fyrnast
meðan öld lifir.
En hlýri þinn
hvorki þorði
eld að ríða
né yfir stíga."
Guðrún svarar: "Grani rann eigi eldinn undir Gunnari konungi en hann þorði að ríða og þarf honum eigi hugar að frýja."
Brynhildur svarar: "Dyljist eigi við að eg hygg Grímhildi eigi vel"
Guðrún svarar: "Ámæl henni eigi því að hún er til þín sem til dóttur sinnar."
Brynhildur svarar: "Hún veldur öllum upphöfum þess böls er oss bítur. Hún bar Sigurði grimmt öl svo að eigi mundi hann mitt nafn."
Guðrún svarar: "Mart rangt orð mælir þú og mikil lygi er slíkt."
Brynhildur svarar: "Njótið þér svo Sigurðar sem þér hafið mig eigi svikið og er yðart samveldi ómaklegt og gangi yður svo sem eg hygg."
Guðrún svarar: "Betur mun eg njóta en þú mundir vilja og engi gat þess að hann ætti of gott við mig né eitt sinn."
Brynhildur svarar: "Illa mælir þú og er af þér rennur muntu iðrast, og hendum eigi heiftyrði."
Guðrún segir: "Þú kastaðir fyrri heiftarorðum á mig. Lætur þú nú sem þú munir yfir bæta en þó býr grimmt undir."
"Leggjum niður ónýtt hjal," segir Brynhildur. "Eg þagði lengi yfir mínum harmi, þeim er mér bjó í brjósti, en eg ann þínum bróður aðeins, og tökum annað tal."
Guðrún segir: "Langt sér hugur þinn um fram."
Og þar af stóð mikill ófagnaður er þær gengu á ána og hún kenndi hringinn og þar af varð þeirra viðræða.
29. Frá harmi Brynhildar
Eftir þetta tal leggst Brynhildur í rekkju og komu þessi tíðindi fyrir Gunnar konung, að Brynhildur er sjúk. Hann hittir hana og spyr hvað henni sé. En hún svarar engu og liggur sem hún sé dauð.
Og er hann leitar eftir fast þá svarar hún: "Hvað gerðir þú af hring þeim, er eg seldi þér, er Buðli konungur gaf mér að efsta skilnaði er þér synir Gjúka konungs komuð til hans og hétuð að herja eða brenna nema þér næðuð mér. Síðan leiddi hann mig á tal og spyr hvern eg kjöri af þeim sem komnir voru. En eg bauðst til að verja landið og vera höfðingi yfir þriðjungi liðs. Voru þá tveir kostir fyrir hendi, að eg mundi þeim verða að giftast sem hann vildi eða vera án alls fjár og hans vináttu. Kvað þó sína vináttu mér mundu betur gegna en reiði. Þá hugsaði eg með mér hvort eg skyldi hlýða hans vilja eða drepa margan mann. Eg þóttist vanfær til að þreyta við hann og þar kom, að eg hést þeim er riði hestinum Grana með Fáfnis arfi og riði minn vafurloga og dræpi þá menn er eg kvað á. Nú treystist engi að ríða nema Sigurður einn. Hann reið eldinn því að hann skorti eigi hug til. Hann drap orminn og Regin og fimm konunga en eigi þú, Gunnar, er þú fölnaðir sem nár og ertu engi konungur né kappi. Og þess strengdi eg heit heima að föður míns að eg mundi þeim einum unna er ágætastur væri alinn, en það er Sigurður. Nú erum vér eiðrofa er vér eigum hann eigi og fyrir þetta skal eg ráðandi þíns dauða. Og eigum vér Grímhildi illt að launa. Henni finnst engi kona huglausari né verri."
Gunnar svarar svo að fáir heyrðu: "Mörg flærðarorð hefir þú mælt, og ertu illúðug kona er þú ámælir þeirri konu, er mjög er um þig fram, og eigi undi hún verr sínu, svo sem þú gerir, eða kvaldi dauða menn og engan myrti hún, og lifir við lof."
Brynhildur svarar: "Ekki höfum vér launþing haft né ódáðir gert og annað er vort eðli og fúsari værum vér að drepa yður."
Síðan vildi hún drepa Gunnar konung en Högni setti hana í fjötra.
Gunnar mælti þá: "Eigi vil eg að hún búi í fjötrum."
Hún svarar: "Hirð eigi það, því að aldrei sérð þú mig glaða síðan í þinni höll eða drekka né tefla né hugað mæla né gulli leggja góð klæði né yður ráð gefa."
Kvað hún sér það mestan harm að hún átti eigi Sigurð. Hún settist upp og sló sinn borða svo að sundur gekk, og bað svo lúka skemmudyrum að langa leið mætti heyra hennar harmtölur. Nú er harmur mikill og heyrir um allan bæinn.
Guðrún spyr skemmumeyjar sínar hví þær séu svo ókátar eða hryggar: "Eða hvað er yður eða hví farið þér sem vitlausir menn eða hver gyski er yður orðinn?"
Þá svarar hirðkona ein er Svafurlöð hét: "Þetta er ótímadagur. Vor höll er full af harmi."
Þá mælti Guðrún til sinna vinkonu: "Stattu upp. Vér höfum lengi sofið, vek Brynhildi, göngum til borða og verum kátar."
"Það geri eg eigi," sagði hún, "að vekja hana né við hana mæla, og mörg dægur drakk hún eigi mjöð né vín og hefir hún fengið goða reiði."
Þá mælti Guðrún til Gunnars: "Gakk að hitta hana," segir hún, "og seg oss illa kunna hennar meini."
Gunnar svarar: "Það er mér bannað að hitta hana eða hennar fé að skipta."
Þó fer Gunnar að hitta hana og leitar marga vega málsenda við hana og fær ekki af um svörin. Gengur nú á brott og hittir Högna og biður hann finna hana. En hann kveðst vera ófús og fer þó og fékk ekki af henni. Og er hittur Sigurður og beðinn að finna hana. Hann svarar engu og er svo búið um kveldið.
Og annan dag eftir, er hann kom heim af dýraveiði, hitti hann Guðrúnu og mælti: "Þann veg hefir fyrir mig borið sem þetta muni til mikils koma, hrollur sjá, og mun Brynhildur deyja."
Guðrún svarar: "Herra minn, mikil kynsl fylgja henni. Hún hefir nú sofið sjö dægur svo að engi þorði að vekja hana."
Sigurður svarar: "Eigi sefur hún. Hún hefir stórræði með höndum við okkur."
Þá mælti Guðrún með gráti: "Það er mikill harmur að vita þinn bana. Far heldur og finn hana og vit ef sjatni hennar ofsi. Gef henni gull og mýk svo hennar reiði."
Sigurður gekk út og fann opinn salinn. Hann hugði hana sofa og brá af henni klæðum og mælti: "Vaki þú, Brynhildur. Sól skín um allan bæinn og er ærið sofið. Hritt af þér harmi og tak gleði."
Hún mælti: "Hví sætir þinni dirfð er þú ferð mig að hitta. Mér var engi verri í þessum svikum."
Sigurður spyr: "Hví mælir þú eigi við menn eða hvað angrar þig?"
Brynhildur svarar: "Þér skal eg segja mína reiði."
Sigurður mælti: "Heilluð ertu ef þú ætlar grimman minn hug við þig, og er sjá þinn maður er þú kaust."
"Nei," segir hún. "Eigi reið Gunnar eldinn til vor og eigi galt hann mér að mundi felldan val. Eg undraðist þann mann er kom í minn sal og þóttist eg kenna yðar augu og fékk eg þó eigi víst skilið fyrir þeirri huldu er á lá á minni hamingju."
Sigurður segir: "Ekki erum vér göfgari menn en synir Gjúka. Þeir drápu Danakonung og mikinn höfðingja, bróður Buðla konungs."
Brynhildur svarar: "Mart illt eigum vér þeim upp að inna og minn oss ekki á harma vora. Þú, Sigurður, vást orminn, og reiðst eldinn og of mína sök, og voru þar eigi synir Gjúka konungs."
Sigurður svarar: "Ekki varð eg þinn maður og varðstu mín kona, og galt við þér mund ágætur konungur."
Brynhildur svarar: "Eigi sá eg svo Gunnar að minn hugur hlægi við honum, og grimm em eg við hann þótt eg hylmi yfir fyrir öðrum."
"Það er ógurlegt," segir Sigurður, "að unna eigi slíkum konungi. Eða hvað angrar þig mest? Mér sýnist sem hans ást sé þér gulli betri."
Brynhildur svarar: "Það er mér sárast minna harma að eg fæ eigi því til leiðar komið að biturt sverð væri roðið í þínu blóði."
Sigurður svarar: "Kvíð eigi því. Skammt mun að bíða áður biturt sverð mun standa í mínu hjarta, og ekki muntu þér verra biðja því að þú munt eigi eftir mig lifa. Munu og fáir vorir lífsdagar héðan í frá."
Brynhildur svarar: "Eigi standa þín orð af litlu fári síðan þér svikuð mig frá öllu yndi og ekki hirði eg um lífið."
Sigurður svarar: "Lif þú og unn Gunnari konungi og mér. Og allt mitt fé vil eg til gefa að þú deyir eigi."
Brynhildur svarar: "Eigi veist þú gjörla mitt eðli. Þú berð af öllum mönnum en þér hefir engi kona orðið leiðari en eg."
Sigurður svarar: "Annað er sannara. Eg unni þér betur en mér þótt eg yrði fyrir þeim svikum og má því nú ekki bregða, því að ávallt er eg gáði míns geðs þá harmaði mig það er þú varst eigi mín kona. En af mér bar eg, sem eg mátti, það, er eg var í konungshöll, og undi eg því þó, að vér vorum öll saman. Kann og verða að fram verði að koma það sem fyrir er spáð og ekki skal því kvíða."
Brynhildur svarar: "Ofseinað hefir þú að segja að þig angrar minn harmur, en nú fáum vér enga líkn."
Sigurður svarar: "Gjarna vildi eg að við stigjum á einn beð bæði og værir þú mín kona."
Brynhildur svarar: "Ekki er slíkt að mæla og eigi mun eg eiga tvo konunga í einni höll og fyrr skal eg líf láta en eg svíki Gunnar konung," - og minnist nú á það er þau fundust á fjallinu og sórust eiða, - "en nú er því öllu brugðið og vil eg eigi lifa."
"Eigi mundi eg þitt nafn," sagði Sigurður, "og eigi kenndi eg þig fyrr en þú varst gift og er þetta hinn mesti harmur."
Þá mælti Brynhildur: "Eg vann eið að eiga þann mann er riði minn vafurloga en þann eið vildi eg halda eða deyja ella."
"Heldur en þú deyir vil eg þig eiga en fyrirláta Guðrúnu," segir Sigurður, en svo þrútnuðu hans síður að í sundur gengu brynjuhringar.
"Eigi vil eg þig," sagði Brynhildur, "og öngan annarra."
Sigurður gekk í brott. Svo segir í Sigurðarkviðu:
Út gekk Sigurðr
andspjalli frá,
hollvinr lofða,
og hnipnaði,
svo að ganga nam
gunnarfúsum
sundr of síður
serkr járnofinn.
Og er Sigurður kom í höllina spyr Gunnar hvort hann viti hver meintregi hennar væri eða hvort hún hefir mál sitt. Sigurður kvað hana mæla mega. Og nú fer Gunnar að hitta hana í annað sinn og spyr hví gegndi hennar meini eða hvort nokkur bót mundi til liggja.
"Eg vil eigi lifa, "sagði Brynhildur, "því að Sigurður hefir mig vélt og eigi síður þig þá er þú lést hann fara í mína sæng. Nú vil eg eigi tvo menn eiga senn í einni höll, og þetta skal vera bani Sigurðar eða þinn eða minn því að hann hefir það allt sagt Guðrúnu en hún brigslar mér."
30. Víg Sigurðar
Eftir þetta gekk Brynhildur út og settist undir skemmuvegg sinn og hafði margar harmtölur, kvað sér allt leitt, bæði land og ríki, er hún átti eigi Sigurð. Og enn kom Gunnar til hennar.
Þá mælti Brynhildur: "Þú skalt láta bæði ríkið og féð, lífið og mig, og skal eg fara heim til frænda minna og sitja þar hrygg nema þú drepir Sigurð og son hans. Al eigi upp úlfhvelpinn."
Gunnar varð nú mjög hugsjúkur og þóttist eigi vita hvað helst lá til, alls hann var í eiðum við Sigurð, og lék ýmist í hug, þótti það þó mest svívirðing ef konan gengi frá honum.
Gunnar mælti: "Brynhildur er mér öllu betri og frægst er hún allra kvenna og fyrr skal eg líf láta en týna hennar ást." Og kallar til sín Högna bróður sinn og mælti: "Fyrir mig er komið vanmæli mikið." Segir að hann vill drepa Sigurð, kvað hann hafa vélt sig í tryggð: "Ráðum við þá gullinu og öllu ríkinu."
Högni segir: "Ekki samir okkur særin að rjúfa með ófriði. Er oss og mikið traust að honum. Eru engir konungar oss jafnir ef sjá hinn hýnski konungur lifir og slíkan mág fáum vér aldrei, og hygg að hversu gott væri ef vér ættum slíkan mág og systursonu, og sé eg hversu þetta stenst af. Það hefir Brynhildur vakið og hennar ráð koma oss í mikla svívirðing og skaða."
Gunnar svarar: "Þetta skal fram fara og sé eg ráðið. Eggjum til Guttorm bróður okkarn. Hann er ungur og fás vitandi og fyrir utan alla eiða."
Högni segir: "Það ráð líst mér illa sett, og þótt fram komi þá munum vér gjöld fyrir taka að svíkja slíkan mann."
Gunnar segir Sigurð deyja skulu, "eða mun eg deyja ella."
Hann biður Brynhildi upp standa og vera káta. Hún stóð upp og segir þó, að Gunnar mun eigi koma fyrr í sama rekkju henni en þetta er fram komið.
Nú ræðast þeir við bræður. Gunnar segir að þetta er gild banasök að hafa tekið meydóm Brynhildar: "Og eggjum Guttorm að gera þetta verk."
Og kalla hann til sín og bjóða honum gull og mikið ríki og vinna þetta til. Þeir tóku orm einn og af vargsholdi og létu sjóða og gáfu honum að eta, sem skáldið kvað:
Sumir viðfiska tóku,
sumir vitnishræ skífðu,
sumir Guttormi gáfu
gera hold
við mungáti
og marga hluti
aðra í tyfrum.
Og við þessa fæðslu varð hann svo æfur og ágjarn, og allt saman og fortölur Grímhildar, að hann hét að gera þetta verk. Þeir hétu honum og mikilli sæmd í móti. Sigurður vissi eigi von þessa vélræða. Mátti hann og eigi við sköpum vinna né sínu aldurlagi. Sigurður vissi sig og eigi véla verðan frá þeim.
Guttormur gekk inn að Sigurði eftir um morguninn er hann hvíldi í rekkju sinni. Og er hann leit við honum þorði Guttormur eigi að veita honum tilræði og hvarf út aftur. Og svo fer í annað sinn. Augu Sigurðar voru svo snör að fár einn þorði gegn að sjá. Og hið þriðja sinn gekk hann inn og var Sigurður þá sofnaður. Guttormur brá sverði og leggur á Sigurði svo að blóðrefillinn stóð í dýnum undir honum. Sigurður vaknar við sárið en Guttormur gekk út til dyranna. Þá tók Sigurður sverðið Gram og kastar eftir honum og kom á bakið og tók í sundur í miðju. Féll annan veg fótahlutur, en annan höfuðið og hendurnar aftur í skemmuna.
Guðrún var sofnuð í faðmi Sigurðar en vaknaði við óumræðilegan harm er hún flaut í hans blóði, og svo kveinaði hún með grát og harmtölur að Sigurður reis upp við hægindið og mælti:
"Grát eigi," sagði hann. "Þínir bræður lifa þér til gamans, en þess til ungan son á eg er kann eigi að varast fjándur sína, og illa hafa þeir fyrir sínum hlut séð. Ekki fá þeir slíkan mág að ríða í her með sér, né systurson, ef sjá næði að vaxa. Og nú er það fram komið er fyrir löngu var spáð og vér höfum dulist við, en engi má við sköpum vinna. En þessu veldur Brynhildur er mér ann um hvern mann fram. Og þess má eg sverja að Gunnari gerði eg aldrei mein og þyrmdi eg okkrum eiðum og eigi var eg ofmikill vinur hans konu. Og ef eg hefði vitað þetta fyrir og stigi eg á mína fætur með mín vopn þá skyldu margir týna sínu lífi áður en eg félli, og allir þeir bræður drepnir og torveldara mundi þeim að drepa mig en hinn mesta vísund eða villigölt."
Konungurinn lét nú líf sitt. En Guðrún blæs mæðilega öndunni. Það heyrir Brynhildur og hló er hún heyrði hennar andvarp.
Þá mælti Gunnar: "Eigi hlærð þú af því að þér sé glatt um hjartarætur, eða hví hafnar þú þínum lit? Og mikið forað ertu og meiri von að þú sért feig, og engi væri maklegri til að sjá Atla konung drepinn fyrir augum þér og ættir þú þar yfir að standa. Nú verðum vér að sitja yfir mági vorum og bróðurbana."
Hún svarar: "Engi frýr að eigi sé fullvegið. En Atli konungur hirðir ekki um hót yðar eða reiði og hann mun yður lengur lifa og hafa meira vald."
Högni mælti: "Nú er fram komið það er Brynhildur spáði og þetta hið illa verk er vér fáum aldrei bót."
Guðrún mælti: "Frændur mínir hafa drepið minn mann. Nú munuð þér ríða í her fyrst og er þér komið til bardaga þá munuð þér finna að Sigurður er eigi á aðra hönd yður. Og munuð þér þá sjá að Sigurður var yður gæfa og styrkur, og ef hann ætti sér slíka sonu þá mættuð þér styrkjast við hans afkvæmi og frændur."
31. Dauði Brynhildar
Nú þóttist engi kunna að svara, að Brynhildur beiddi þess hlæjandi er hún harmaði með gráti.
Þá mælti hún: "Það dreymdi mig, Gunnar, að eg átti kalda sæng en þú ríður í hendur óvinum þínum, og öll ætt yðar mun illa fara er þér eruð eiðrofa. Og mundir þú það óglöggt er þið blönduðuð blóði saman, Sigurður og þú, er þú réðst hann og hefir þú honum allt illu launað það er hann gerði vel til þín og lét þig fremstan vera. Og þá reyndi það, er hann kom til vor, hve hann hélt sína eiða, að hann lagði okkar í milli hið snarpeggjaða sverð það er eitri var hert. Og snemma réðuð þér til saka við hann og við mig þá er eg var heima með föður mínum og hafði eg allt það er eg vildi og ætlaði eg engan yðarn minn skyldu verða þá er þér riðuð þar að garði, þrír konungar. Síðan leiddi Atli mig á tal og spyr ef eg vildi þann eiga er riði Grana. Sá var yður ekki líkur. Og þá hést eg syni Sigmundar konungs og engum öðrum. Og eigi mun yður farast þótt eg deyi."
Þá reis Gunnar upp og lagði hendur um háls henni og bað að hún skyldi lifa og þiggja fé og allir aðrir löttu hana að deyja. En hún hratt hverjum frá sér er að henni kom og kvað ekki tjóa mundu að letja hana þess er hún ætlaði. Síðan hét Gunnar á Högna og spyr hann ráða og bað hann til fara og vita ef hann fengi mýkt skaplyndi hennar, og kvað nú ærna þörf vera á höndum ef sefast mætti hennar harmur þar til er frá liði.
Högni svarar: "Letji engi maður hana að deyja því að hún varð oss aldrei að gagni og engum manni síðan hún kom hingað."
Nú bað hún taka mikið gull og bað þar koma alla þá er fé vildu þiggja. Síðan tók hún eitt sverð og lagði undir hönd sér og hneig upp við dýnur og mælti: "Taki hér nú gull hver er þiggja vill."
Allir þögðu.
Brynhildur mælti: "Þiggið gullið og njótið vel."
Enn mælti Brynhildur til Gunnars: "Nú mun eg segja þér litla stund það er eftir mun ganga. Sættast munuð þið Guðrún brátt með ráðum Grímhildar hinnar fjölkunnugu. Dóttir Guðrúnar og Sigurðar mun heita Svanhildur, er vænst mun fædd allra kvenna. Mun Guðrún gefin Atla að sínum óvilja. Oddrúnu muntu vilja eiga en Atli mun það banna. Þá munuð þið eiga launfundi og mun hún þér unna. Atli mun þig svíkja og í ormgarð setja og síðan mun Atli drepinn og synir hans. Guðrún mun þá drepa. Síðan munu hana stórar bárur bera til borgar Jónakurs konungs. Þar mun hún fæða ágæta sonu. Svanhildur mun úr landi send og gift Jörmunreki konungi. Hana munu bíta Bikka ráð. Og þá er farin öll ætt yðar og eru Guðrúnar harmar að meiri.
Nú bið eg þig, Gunnar, efstu bænar. Lát gera eitt bál mikið á sléttum velli öllum oss, mér og Sigurði og þeim sem drepnir voru með honum. Lát þar tjalda yfir af rauðu mannablóði og brenna mér þar á aðra hönd þenna hinn hýnska konung, en á aðra hönd honum mína menn, tvo að höfði, tvo að fótum og tvo hauka. Þá er að jafnaði skipt. Látið þar á milli okkar brugðið sverð sem fyrr er við stigum á einn beð og hétum þá hjóna nafni. Og eigi fellur honum þá hurð á hæla ef eg fylgi honum, og er vor leiðsla þá ekki aumleg ef honum fylgja fimm ambáttir og átta þjónar, er faðir minn gaf mér, og þar brenna og þeir er drepnir voru með Sigurði. Og fleira mundi eg mæla ef eg væri eigi sár, en nú þýtur undin en sárið opnast og sagði eg þó satt."
Nú er búið um lík Sigurðar að fornum sið og gert mikið bál. Og er það er mjög í kynt þá var þar lagt á ofan lík Sigurðar Fáfnisbana og sonar hans þreveturs, er Brynhildur lét drepa, og Guttorms. Og er bálið var allt loganda gekk Brynhildur þar á út og mælti við skemmumeyjar sínar að þær tækju gull það er hún vildi gefa þeim. Og eftir þetta deyr Brynhildur og brann þar með Sigurði, og lauk svo þeirra æfi.
32. Guðrún var gefin Atla konungi
Nú segir það hver er þessi tíðindi heyrir að engi maður mun þvílíkur eftir í veröldunni og aldrei mun síðan borinn slíkur maður sem Sigurður var fyrir hversvetna sakar og hans nafn mun aldrei fyrnast í þýðverskri tungu og á Norðurlöndum meðan heimurinn stendur.
Það er sagt einhvern dag þá er Guðrún sat í skemmu sinni, þá mælti hún: "Betra var þá vort líf er eg átti Sigurð. Svo bar hann af öllum mönnum sem gull af járni eða laukur af öðrum grösum eða hjörtur af öðrum dýrum uns bræður mínir fyrirmundu mér slíks manns er öllum var fremri. Eigi máttu þeir sofa áður þeir drápu hann. Mikinn gný gerði Grani þá er hann sá sáran sinn lánardrottinn. Síðan ræddi eg við hann sem við mann en hann hnípti í jörðina og vissi að Sigurður var fallinn."
Síðan hvarf Guðrún á brott á skóga og heyrði alla vega frá sér vargaþyt og þótti þá blíðara að deyja. Guðrún fór uns hún kom til hallar Hálfs konungs og sat þar með Þóru Hákonardóttur í Danmörku sjö misseri og var þar í miklum fagnaði, og hún sló borða yfir henni og skrifaði þar á mörg og stór verk og fagra leika, er tíðir voru í þann tíma, sverð og brynjur og allan konungsbúnað, skip Sigmundar konungs er skriðu fyrir land fram. Og það byrðu þær er þeir börðust Sigar og Siggeir á Fjóni suður. Slíkt var þeirra gaman og huggaðist Guðrún nú nokkuð harms síns.
Þetta spyr Grímhildur hvar Guðrún er niður komin. Heimtir á tal sonu sína og spyr hverju þeir vilja bæta Guðrúnu son sinn og mann, kvað þeim það skylt. Gunnar segir. Kveðst vilja gefa henni gull og bæta henni svo harma sína. Senda eftir vinum sínum og búa hesta sína, hjálma, skjöldu, sverð og brynjur og allskonar herklæði. Og var þessi ferð búin hið kurteislegsta, og engi sá kappi, er mikill var, sat nú heima. Hestar þeirra voru brynjaðir og hver riddari hafði annaðhvort gyltan hjálm eða skyggðan. Grímhildur ræðst í ferð með þeim og segir þeirra erindi svo fremi fullgert munu verða að hún sitji eigi heima. Þeir höfðu alls fimm hundruð manna. Þeir höfðu og ágæta menn með sér. Þar var Valdamar af Danmörk og Eymóður og Jarisleifur.
Þeir gengu inn í höll Hálfs konungs. Þar voru Langbarðar, Frakkar og Saxar. Þeir fóru með öllum herbúnaði og höfðu yfir sér loða rauða, sem kveðið er:
Stuttar brynjur,
steypta hjálma,
skálmum gyrðir,
og höfðu skarar jarpar.
Þeir vildu velja systur sinni góðar gjafir og mæltu vel við hana en hún trúði engum þeirra. Síðan færði Grímhildur henni meinsamlegan drykk og varð hún við að taka og mundi síðan engar sakar. Sá drykkur var blandinn með jarðar magni og sæ og dreyra sonar hennar, og í því horni voru ristnir hverskyns stafir og roðnir með blóði, sem hér segir:
Voru í því horni
hverskyns stafir
ristnir og roðnir,
ráða eg né máttak.
Lyngfiskr langr,
lands Haddingja
ax óskorið,
innleið dýra.
Voru þeim bjóri
böl mörg saman:
urt alls viðar
og akarn brunnin,
umdögg arins,
iðrar blótnar,
svíns lifr soðin,
því að sakar deyfði.
Og eftir það, er vilji þeirra kom saman, gerðist fagnaður mikill.
Þá mælti Grímhildur er hún fann Guðrúnu: "Vel verði þér, dóttir. Eg gef þér gull og allskonar gripi að þiggja eftir þinn föður, dýrlega hringa og ársal hýnskra meyja, þeirra er kurteisastar eru, þá er þér bættur þinn maður. Síðan skal þig gifta Atla konungi hinum ríka. Þá muntu ráða hans auði. Og lát eigi frændur þína fyrir sakir eins manns og ger heldur sem vér biðjum."
Guðrún svarar: "Aldrei vil eg eiga Atla konung og ekki samir okkur ætt saman að auka."
Grímhildur svarar: "Eigi skaltu nú á heiftir hyggja og lát sem lifi Sigurður og Sigmundur ef þú átt sonu."
Guðrún segir: "Ekki má eg af honum hyggja. Hann var öllum fremri."
Grímhildur segir: "Þenna konung mun þér skipað að eiga en engan skaltu ellegar eiga."
Guðrún segir: "Bjóðið þér mér eigi þenna konung, er illt eitt mun af standa þessi ætt, og mun hann sonu þína illu beita og þar eftir mun honum grimmu hefnt vera."
Grímhildur varð við hennar fortölur illa við um sonu sína og mælti: "Ger sem vér beiðum og muntu þar fyrir taka mikinn metnað og vora vináttu og þessa staði er svo heita: Vinbjörg og Valbjörg."
Hennar orð stóðust svo mikið að þetta varð fram að ganga.
Guðrún mælti: "Þetta mun verða fram að ganga og þó að mínum óvilja og mun það lítt til yndis heldur til harma."
Síðan stíga þeir á hesta sína og eru konur þeirra settar á vagna og fóru svo sjö daga á hestum en aðra sjö á skipum og hina þriðju sjö enn landveg, þar til er þeir komu að einni hárri höll. Henni gekk þar í mót mikið fjölmenni og var þar búin ágætleg veisla, sem áður höfðu orð í milli farið, og fór hún fram með sæmd og mikilli prýði. Og að þessi veislu drekkur Atli brúðlaup til Guðrúnar. En aldrei gerði hugur hennar við honum hlæja og með lítilli blíðu var þeirra samvista.
33. Atli bauð heim Gjúkasonum
Nú er það sagt einhverja nótt að Atli konungur vaknar úr svefni. Mælti hann við Guðrúnu:
"Það dreymdi mig," segir hann, "að þú legðir á mér sverði."
Guðrún réð drauminn og kvað það fyrir eldi er járn dreymdi, "og dul þeirri er þú ætlar þig öllum fremra."
Atli mælti: "Enn dreymdi mig sem hér væru vaxnir tveir reyrteinar og vildi eg aldrei skeðja. Síðan voru þeir rifnir upp með rótum og roðnir í blóði og bornir á bekki og boðnir mér að eta. Enn dreymdi mig að haukar tveir flygju mér af hendi og væru bráðalausir og fóru til heljar. Þótti mér þeirra hjörtum við hunang blandið og þóttist eg eta. Síðan þótti mér sem hvelpar fagrir lægju fyrir mér og gullu við hátt, og át eg hræ þeirra að mínum óvilja."
Guðrún segir: "Eigi eru draumar góðir en eftir munu ganga. Synir þínir munu vera feigir og margir hlutir þungir munu oss að hendi koma."
"Það dreymdi mig enn," segir hann, "að eg lægi í kör og væri ráðinn bani minn."
Nú líður þetta og er þeirra samvista fáleg. Nú íhugar Atli konungur hvar niður mun komið það mikla gull er átt hafði Sigurður, en það veit nú Gunnar konungur og þeir bræður.
Atli var mikill konungur og ríkur, vitur og fjölmennur. Gerir nú ráð við sína menn hversu með skal fara. Hann veit að þeir Gunnar eiga miklu meira fé en né einir menn megi við þá jafnast. Tekur nú það ráð að senda menn á fund þeirra bræðra og bjóða þeim til veislu og að sæma þá mörgum hlutum. Sá maður var fyrir þeim er Vingi er nefndur.
Drottningin veit nú þeirra einmæli og grunar að vera muni vélar við bræður hennar. Guðrún ristur rúnar og hún tekur einn gullhring og knýtti í vargshár og fær þetta í hendur sendimönnum konungs. Síðan fóru þeir eftir konungs boði. Og áður þeir stigju á land sá Vingi rúnarnar og sneri á aðra leið og að Guðrún fýsti í rúnunum að þeir kæmu á hans fund.
Síðan komu þeir til hallar Gunnars konungs og var tekið við þeim vel og gervir fyrir þeim eldar stórir. Og síðan drukku þeir með gleði hinn besta drykk.
Þá mælti Vingi: "Atli konungur sendir mig hingað og vildi að þið sæktuð hann heim með miklum sóma og þægjuð af honum mikinn sóma, hjálma og skjöldu, sverð og brynjur, gull og góð klæði, herlið og hesta og mikið lén, og ykkur lést hann best unna síns ríkis."
Þá brá Gunnar höfði og mælti til Högna: "Hvað skulum við af þessu boði þiggja? Hann býður okkur að þiggja mikið ríki en enga konunga veit eg jafnmikið gull eiga sem okkur því að við höfum það gull allt er á Gnitaheiði lá, og eigum við stórar skemmur fullar af gulli og hinum bestum höggvopnum og allskonar herklæðum. Veit eg minn hestinn bestan og sverðið hvassast, gullið ágætast."
Högni svarar: "Undrast eg boð hans því að það hefir hann sjaldan gert, og óráðlegt mun vera að fara á hans fund. Og það undrast eg, er eg sá gersimar þær er Atli konungur sendi okkur, að eg sá vargshári knýtt í einn gullhring, og má vera að Guðrúnu þyki hann úlfshug við okkur hafa og vilji hún eigi að við förum."
Vingi sýnir honum nú rúnarnar, þær er hann kvað Guðrúnu sent hafa.
Nú gengur alþýða að sofa en þeir drukku við nokkura menn. Þá gekk að kona Högna er hét Kostbera, kvenna fríðust, og leit á rúnarnar. Kona Gunnars hét Glaumvör, skörungur mikill. Þær skenktu. Konungar gerðust allmjög drukknir.
Það finnur Vingi og mælti: "Ekki er því að leyna að Atli konungur er þungfær mjög og gamlaður mjög að verja sitt ríki en synir hans ungir og til engis færir. Nú vill hann gefa yður vald yfir ríkinu meðan þeir eru svo ungir og ann yður best að njóta."
Nú var bæði að Gunnar var mjög drukkinn en boðið mikið ríki, mátti og eigi við sköpum vinna. Heitir nú ferðinni og segir Högna bróður sínum.
Hann svarar: "Yðart atkvæði mun standa hljóta og fylgja mun eg þér, en ófús em eg þessarar ferðar."
34. Frá draumum Kostberu
Og er menn höfðu drukkið sem líkaði þá fóru þeir að sofa. Tekur Kostbera að líta á rúnarnar og innti stafina og sá að annað var á ristið en undir var og villtar voru rúnarnar. Hún fékk þó skilið af visku sinni. Eftir það fer hún til rekkju hjá bónda sínum.
Og er þau vöknuðu, mælti hún til Högna: "Heiman ætlar þú og er það óráðlegt. Far heldur í annað sinn. Og eigi muntu vera glöggrýnn ef þér þykir sem hún hafi í þetta sinn boðið þér, systir þín. Eg réð rúnarnar og undrast eg um svo vitra konu er hún hefir villt ristið. En svo er undir sem bani yðar liggi á, en þar var annaðhvort, að henni varð vant stafs eða ellegar hafa aðrir villt. Og nú skaltu heyra draum minn:
Það dreymdi mig að mér þótti hér falla inn á, harðla ströng, og bryti upp stokka í höllinni."
Hann svarar: "Þér eruð oft illúðgar og á eg ekki skap til þess að fara illu í mót við menn nema það sé maklegt. Mun hann oss vel fagna."
Hún segir: "Þér munuð reyna, en eigi mun vinátta fylgja boðinu. Og enn dreymdi mig að önnur á félli hér inn og þyti grimmlega og bryti upp alla palla í höllunni og bryti fætur ykkra beggja bræðra, og mun það vera nakkvað."
Hann svarar: "Þar munu renna akrar er þú hugðir ána, og er vér göngum akurinn nema oft stórar agnir fætur vora."
"Það dreymdi mig," segir hún, "að blæja þín brynni og hryti eldurinn upp af höllunni."
Hann svarar: "Það veit eg gjörla hvað það er. Klæði vor liggja hér lítt rækt og munu þau þar brenna er þú hugðir blæjuna."
"Björn hugði eg hér inn koma," segir hún, "og braut upp konungs hásætið og hristi svo hrammana að vér urðum öll hrædd, og hafði oss öll senn sér í munni svo að ekki máttum vér, og stóð þar af mikil ógn."
Hann svarar: "Þar mun koma veður mikið er þú ætlaðir hvítabjörn."
"Örn þótti mér hér inn koma," segir hún, "og eftir höllunni og dreifði mig blóði og oss öll, og mun það illt vita því að mér þótti sem það væri hamur Atla konungs."
Hann svarar: "Oft slátrum vér örlega og höggum stór naut oss að gamni og er það fyrir yxnum er örnu dreymir, og mun heill hugur Atla við oss."
Og nú hætta þau þessu tali.
35. Gjúkungar sækja heim Atla
Nú er að segja frá Gunnari að þar er sams dæmi er þau vakna, að Glaumvör, kona Gunnars, segir drauma sína marga, þá er henni þóttu líklegir til svika en Gunnar réð alla því á móti.
"Þessi var einn af þeim," sagði hún, "að mér þótti blóðugt sverð borið hér inn í höllina og varstu sverði lagður í gegnum og emjuðu úlfar á báðum endum sverðsins."
Konungurinn svarar: "Smáir hundar vilja oss þar bíta og er oft hundagnöll fyrir vopnum með blóði lituðum."
Hún mælti: "Enn þótti mér hér inn koma konur og voru dapurlegar og þig kjósa sér til manns. Má vera að þínar dísir hafi það verið."
Hann svarar: "Vant gerist nú að ráða og má ekki forðast sitt aldurlag en eigi ólíkt að vér verðum skammæir."
Og um morguninn spretta þeir upp og vilja fara en aðrir löttu.
Síðan mælti Gunnar við þann mann er Fjörnir hét: "Statt upp og gef oss að drekka af stórum kerum gott vín því að vera má að sjá sé vor hin síðasta veisla. Og nú mun hinn gamli úlfurinn komast að gullinu ef vér deyjum og sá björninn mun eigi spara að bíta sínum vígtönnum."
Síðan leiddi liðið þá út með gráti. Son Högna mælti: "Farið vel og hafið góðan tíma."
Eftir var meiri hlutur liðs þeirra. Sólarr og Snævarr, synir Högna, fóru og einn kappi mikill er Orkningur hét. Hann var bróðir Beru. Fólkið fylgdi þeim til skipa og löttu allir þá fararinnar en ekki tjóaði.
Þá mælti Glaumvör: "Vingi," segir hún. "Meiri von að mikil óhamingja standi af þinni komu og munu stórtíðindi gerast í för þinni."
Hann svarar: "Þess sver eg að eg lýg eigi, og mig taki hár gálgi og allir gramir ef eg lýg nakkvað orð," - og lítt eirði hann sér í slíkum orðum.
Þá mælti Bera: "Farið vel og með góðum tíma."
Högni svarar: "Verið kátar hversu sem með oss fer."
Þar skiljast þau með sínum forlögum. Síðan reru þeir svo fast og af miklu afli, að kjölurinn gekk undan skipinu mjög svo hálfur. Þeir knúðu fast árar með stórum bakföllum svo að brotnuðu hlummir og háir. Og er þeir komu að landi festu þeir ekki skip sín. Síðan riðu þeir sínum ágætum hestum myrkan skóg um hríð. Nú sjá þeir konungsbæinn. Þangað heyra þeir mikinn gný og vopnabrak og sjá þar mannfjölda og mikinn viðurbúnað er þeir höfðu, og öll borgarhlið voru full af mönnum. Þeir ríða að borginni og var hún byrgð. Högni braut upp hliðið, og ríða nú í borgina.
Þá mælti Vingi: "Þetta mættir þú vel ógert hafa og bíðið nú hér meðan eg sæki yður gálgatré. Eg bað yður með blíðu hér koma en flátt bjó undir. Nú mun skammt að bíða áður þér munuð upp festir."
Högni svarar: "Eigi munum vér fyrir þér vægja og lítt hygg eg að vér hrykkjum þar er menn skyldu berjast og ekki tjóar þér oss að hræða og það mun þér illa gefast."
Hrundu honum síðan og börðu hann öxarhömrum til bana.
36. Frá bardaga
Þeir ríða nú að konungshöllinni. Atli konungur skipar liði sínu til orrustu og svo vikust fylkingar að garður nokkur varð í millum þeirra.
"Verið velkomnir með oss," segir hann, "og fáið mér gull það hið mikla er vér erum til komnir, það fé er Sigurður átti en nú á Guðrún."
Gunnar segir: "Aldrei færð þú það fé og dugandi menn munu þér hér fyrir hitta áður vér látum lífið ef þér bjóðið oss ófrið. Kann vera að þú veitir þessa veislu stórmannlega og af lítilli eymd við örn og úlf."
"Fyrir löngu hafði eg það mér í hug," segir Atli, "að ná yðru lífi en ráða gullinu og launa yður það níðingsverk er þér svikuð yðarn hinn besta mág, og skal eg hans hefna."
Högni svarar: "Það kemur yður verst að haldi að liggja lengi á þessu ráði en eruð þó að engu búnir."
Nú slær í orrustu harða og er fyrst skothríð. Og nú koma fyrir Guðrúnu tíðindin. Og er hún heyrir þetta verður hún við gneip og kastar af sér skikkjunni. Eftir það gekk hún út og heilsaði þeim er komnir voru og kyssti bræður sína og sýndi þeim ást, og þessi var þeirra kveðja hin síðasta.
Þá mælti hún: "Eg þóttist ráð hafa við sett að eigi kæmuð þér. En engi má við sköpum vinna."
Þá mælti hún: "Mun nokkuð tjóa að leita um sættir?"
En allir neituðu því þverlega.
Nú sér hún að sárt er leikið við bræður hennar, hyggur nú á harðræði, fór í brynju og tók sér sverð og barðist með bræðrum sínum og gekk svo fram sem hinn hraustasti karlmaður. Og það sögðu allir á einn veg að varla sæi meiri vörn en þar. Nú gerist mikið mannfall og ber þó af framganga þeirra bræðra. Orrustan stendur nú lengi fram allt um miðjan dag. Gunnar og Högni gengu í gegnum fylkingar Atla konungs og svo er sagt að allur völlur flaut í blóði. Synir Högna ganga nú hart fram.
Atli konungur mælti: "Vér höfum lið mikið og frítt og stóra kappa en nú eru margir af oss fallnir og eigum vér yður illt að launa, drepið nítján kappa mína en ellefu einir eru eftir."
Og verður hvíld á bardaganum.
Þá mælti Atli konungur: "Fjórir vorum vér bræður og em eg nú einn eftir. Eg hlaut mikla mægð og hugði eg mér það til frama. Konu átti eg væna og vitra, stórlynda og harðúðga, en ekki má eg njóta hennar visku því að sjaldan vorum við sátt. Þér hafið nú drepið marga mína frændur en svikið mig frá ríkinu og fénu, ráðið systur mína og það harmar mig mest."
Högni segir: "Hví getur þú slíks? Þér brugðuð fyrri friði. Þú tókst mína frændkonu og sveltir í hel og myrtir og tókst féð, og var það eigi konunglegt. Og hlægilegt þykir mér er þú tínir þinn harm, og goðunum vil eg það þakka er þér gengur illa."
37. Dráp Gjúkunga
Nú eggjar Atli konungur liðið að gera harða sókn. Berjast nú snarplega og sækja Gjúkungar að svo fast, að Atli konungur hrökkur inn í höllina og berjast nú inni og var orrustan allhörð. Sjá bardagi varð með miklu mannspelli og lýkur svo að fellur allt lið þeirra bræðra svo að þeir standa tveir upp, og fór áður margur maður til heljar fyrir þeirra vopnum.
Nú er sótt að Gunnari konungi og fyrir sakir ofureflis var hann höndum tekinn og í fjötra settur. Síðan barðist Högni af mikilli hreysti og drengskap og felldi hina stærstu kappa Atla konungs tuttugu. Hann hratt mörgum í þann eld er þar var gerr í höllunni. Allir urðu á eitt sáttir að varla sæi slíkan mann. En þó varð hann að lyktum ofurliði borinn og höndum tekinn.
Atli konungur mælti: "Mikil furða er það hve margur maður hér hefir farið fyrir honum. Nú skerið úr honum hjartað og sé það hans bani."
Högni mælti: "Gerið sem þér líkar. Glaðlega mun eg hér bíða þess er þér viljið að gera, og það muntu skilja að eigi er hjarta mitt hrætt og reynt hefi eg fyrr harða hluti og var eg gjarn að þola mannraun þá er eg var ósár. En nú erum vér mjög sárir og muntu enn ráða vorum skiptum."
Þá mælti ráðgjafi Atla konungs: "Sé eg betra ráð. Tökum heldur þrælinn Hjalla en forðum Högna. Þræll þessi er skapdauði. Hann lifir eigi svo lengi að hann sé eigi dálegur."
Þrællinn heyrir og æpir hátt og hleypur undan hvert er honum þykir skjóls von. Kveðst illt hljóta af ófriði þeirra og voss að gjalda. Kveður þann dag illan vera er hann skal deyja frá sínum góðum kostum og svínageymslu. Þeir þrifu hann og brugðu að honum knífi. Hann æpti hátt áður hann kenndi oddsins.
Þá mælti Högni, sem færrum er títt þá er í mannraun koma, að hann árnaði þrælnum lífs og kveðst eigi vilja skræktun heyra, kvað sér minna fyrir að fremja þenna leik. Þrællinn varð laus og þá fjörið.
Nú eru þeir báðir í fjötra settir, Gunnar og Högni. Þá mælti Atli konungur til Gunnars konungs að hann skyldi segja til gullsins ef hann vill lífið þiggja.
Hann svarar: "Fyrr skal eg sjá hjarta Högna bróður míns blóðugt."
Og nú þrifu þeir þrælinn í annað sinn og skáru úr honum hjartað og báru fyrir konunginn Gunnar.
Hann svarar: "Hjarta Hjalla má hér sjá, hins blauða, og er ólíkt hjarta Högna hins frækna því að nú skelfur mjög en hálfu meir þá er í brjósti honum lá."
Nú gengu þeir eftir eggjun Atla konungs að Högna og skáru úr honum hjartað. Og svo var mikill þróttur hans að hann hló meðan hann beið þessa kvöl og allir undruðust þrek hans og það er síðan að minnum haft. Þeir sýndu Gunnari hjarta Högna.
Hann svarar: "Hér má sjá hjarta Högna hins frækna og er ólíkt hjarta Hjalla hins blauða því að nú hrærist lítt en miður meðan í brjósti honum lá. Og svo muntu, Atli, láta þitt líf sem nú látum vér. Og nú veit eg einn hvar gullið er og mun eigi Högni segja þér. Mér lék ýmist í hug þá er við lifðum báðir en nú hefi eg einn ráðið fyrir mér. Skal Rín nú ráða gullinu fyrr en Hýnir beri það á höndum sér."
Atli konungur mælti: "Farið á brott með bandingjann."
Og svo var gert.
Guðrún kveður nú með sér menn og hittir Atla og segir: "Gangi þér nú illa og eftir því sem þér hélduð orð við mig og Gunnar."
Nú er Gunnar konungur settur í einn ormgarð. Þar voru margir ormar fyrir og voru hendur hans fast bundnar. Guðrún sendi honum hörpu eina en hann sýndi sína list og sló hörpuna með mikilli list, að hann drap strengina með tánum og lék svo vel og afbragðlega að fáir þóttust heyrt hafa svo með höndum slegið. Og þar til lék hann þessa íþrótt að allir sofnuðu ormarnir nema ein naðra mikil og illileg skreið til hans og gróf inn sínum rana þar til er hún hjó hans hjarta, og þar lét hann sitt líf með mikilli hreysti.
38. Hefnd Guðrúnar
Atli konungur þóttist nú hafa unnið mikinn sigur og sagði Guðrúnu svo sem með nokkuru spotti eða svo sem hann hældist: "Guðrún," segir hann. "Misst hefir þú nú bræðra þinna og veldur þú því sjálf."
Hún svarar: "Vel líkar þér nú er þú lýsir vígum þessum fyrir mér. En vera má að þú iðrist þá er þú reynir það er eftir kemur og sú mun erfðin lengst eftir lifa að týna eigi grimmdinni, og mun þér eigi vel ganga meðan eg lifi."
Hann svarar: "Við skulum nú gera okkra sætt og vil eg bæta þér bræður þína með gulli og dýrum gripum eftir þínum vilja."
Hún svarar: "Lengi hefi eg eigi verið hæg viðureignar og mátti um hræfa meðan Högni lifði. Muntu og aldrei bæta bræður mína svo að mér hugni, en oft verðum vér konurnar ríki bornar af yðru valdi. Nú eru mínir frændur allir dauðir og muntu nú einn við mig ráða. Mun eg nú þenna kost upp taka og látum gera mikla veislu og vil eg nú erfa bræður mína og svo þína frændur."
Gerir hún sig nú blíða í orðum en þó var samt undir raunar. Hann var talhlýðinn og trúði á hennar orð, er hún gerði sér létt um ræður. Guðrún gerir nú erfi eftir sína bræður og svo Atli konungur eftir sína menn og þessi veisla var við mikla svörfan.
Nú hyggur Guðrún á harma sína og situr um það að veita konungi nokkura mikla skömm. Og um kveldið tók hún sonu þeirra Atla konungs er þeir léku við stokki. Sveinarnir glúpnuðu og spurðu hvað þeir skyldu.
Hún svarar: "Spyrjið eigi að. Bana skal ykkur báðum."
Þeir svöruðu: "Ráða muntu börnum þínum sem þú vilt, það mun engi banna þér, en þér er skömm í að gera þetta."
Síðan skar hún þá á háls.
Konungurinn spurði eftir hvar synir hans væru.
Guðrún svarar: "Eg mun það segja þér og glaða þitt hjarta. Þú vaktir við oss mikinn harm þá er þú drapst bræður mína. Nú skaltu heyra mína ræðu. Þú hefir misst þinna sona og eru þeirra hausar hér að borðkerum báðir og sjálfur drakkstu þeirra blóð við vín blandið. Síðan tók eg hjörtu þeirra og steikti eg á teini en þú ást."
Atli konungur svarar: "Grimm ertu er þú myrðir sonu þína og gafst mér þeirra hold að eta og skammt lætur þú ills í milli."
Guðrún segir: "Væri minn vilji til að gera þér miklar skammir og verður eigi fullilla farið við slíkan konung."
Konungur mælti: "Verra hefir þú gert en menn viti dæmi til og er mikil óviska í slíkum harðræðum og maklegt að þú værir á báli brennd og barin áður grjóti í hel og hefðir þú þá það er þú ferð á leið."
Hún svarar: "Þú spáir það þér sjálfum en eg mun hljóta annan dauða."
Þau mæltust við mörg heiftarorð.
Högni átti son eftir er Niflungur hét. Hann hafði mikla heift við Atla konung og sagði Guðrúnu að hann vildi hefna föður síns. Hún tók því vel og gera ráð sín. Hún kvað mikið happ í ef það yrði gert. Og of kveldið er konungur hafði drukkið, gekk hann til svefns. Og er hann var sofnaður, kom Guðrún þar og son Högna. Guðrún tók eitt sverð og leggur fyrir brjóst Atla konungi. Véla þau um bæði og son Högna.
Atli konungur vaknar við sárið og mælti: "Eigi mun hér þurfa um að binda eða umbúð að veita. Eða hver veitir mér þennan áverka?"
Guðrún segir: "Eg veld nokkuru um en sumu son Högna."
Atli konungur mælti: "Eigi sæmdi þér þetta að gera þó að nokkur sök væri til. Og varstu mér gift að frænda ráði og mund galt eg við þér, þrjá tigu góðra riddara og sæmilegra meyja og marga menn aðra, og þó léstu þér eigi að hófi, nema þú réðir löndum þeim er átt hafði Buðli konungur, og þína sværu léstu oft með gráti sitja."
Guðrún mælti: "Mart hefir þú mælt ósatt og ekki hirði eg það. Og oft var eg óhæg í mínu skapi en miklu jókst þú á. Hér hefir verið oft mikil styrjöld í þínum garði og börðust oft frændur og vinir og ýfðist hvað við annað, og var betri æfi vor þá er eg var með Sigurði. Drápum konunga og réðum um eignir þeirra og gáfum grið þeim er svo vildu en höfðingjar gengu á hendur oss og létum þann ríkan er svo vildi. Síðan misstum vér hans og var það lítið að bera ekkju nafn, en það harmar mig mest er eg kom til þín en átt áður hinn ágætasta konung, og aldrei komstu svo úr orrustu að eigi bærir þú hinn minna hlut."
Atli konungur svarar: "Eigi er það satt og við slíkar fortölur batnar hvorugra hluti því að vér höfum skarðan. Ger nú til mín sómasamlega og lát búa um lík mitt til ágætis."
Hún segir: "Það mun eg gera, að láta þér gera veglegan gröft og gera þér virðulega steinþró og vefja þig í fögrum dúkum og hyggja þér hverja þörf."
Eftir það deyr hann. En hún gerði sem hún hét. Síðan lét hún slá eldi í höllina. Og er hirðin vaknaði við óttann þá vildu menn eigi þola eldinn og hjuggust sjálfir og fengu svo bana. Lauk þar ævi Atla konungs og allrar hirðar hans. Guðrún vildi nú eigi lifa eftir þessi verk en endadagur hennar var eigi enn kominn.
Völsungar og Gjúkungar, að því er menn segja, hafa verið mestir ofurhugar og ríkismenn og svo finnst í öllum fornkvæðum. Og nú stöðvaðist þessi ófriður með þeima hætti að liðnum þessum tíðindum.
39. Jónakur konungur fékk Guðrúnar
Guðrún átti dóttur við Sigurði er Svanhildur hét. Hún var allra kvenna vænst og hafði snör augu sem faðir hennar svo að fár einn þorði að sjá undir hennar brýn. Hún bar svo mjög af öðrum konum um vænleik sem sól af öðrum himintunglum.
Guðrún gekk eitt sinn til sævar og tók grjót í fang sér og gekk á sæinn út og vildi tapa sér. Þá hófu hana stórar bárur fram eftir sjánum og fluttist hún með þeirra fulltingi og kom um síðir til borgar Jónakurs konungs. Hann var ríkur konungur og fjölmennur. Hann fékk Guðrúnar. Þeirra börn voru þeir Hamðir og Sörli og Erpur. Svanhildur var þar upp fædd.
40. Frá Jörmunreki og Svanhildi
Jörmunrekur hefir konungur heitið. Hann var ríkur konungur í þann tíma. Hans son hét Randvér.
Konungur heimtir á tal son sinn og mælti: "Þú skalt fara mína sendiför til Jónakurs konungs, og minn ráðgjafi er Bikki heitir. Þar er upp fædd Svanhildur, dóttir Sigurðar Fáfnisbana, er eg veit fegursta mey undir heimssólu. Hana vildi eg helst eiga og hennar skaltu biðja til handa mér."
Hann segir: "Skylt er það, herra, að eg fari yðra sendiför." Lætur nú búa ferð þeirra sæmilega. Fara þeir nú uns þeir koma til Jónakurs konungs, sjá Svanhildi, þykir mikils um vert hennar fríðleik.
Randvér heimti konung á tal og mælti: "Jörmunrekur konungur vill bjóða yður mægi sitt. Hefir hann spurn til Svanhildar og vill hann kjósa hana sér til konu, og er ósýnt að hún sé gefin ríkara manni en hann er."
Konungur segir að það var virðulegt ráð, "og er hann mjög frægur".
Guðrún segir: "Valt er hamingjunni að treystast, að eigi bresti hún."
En með fýsing konungs og öllu því er á lá, er þetta nú ráðið og fer nú Svanhildur til skips með virðulegu föruneyti og sat í lyftingu hjá konungssyni.
Þá mælti Bikki til Randvés: "Sannlegt væri það, að þér ættuð svo fríða konu en eigi svo gamall maður."
Honum féllst það vel í skap og mælti til hennar með blíðu, og hvort til annars. Koma heim í land og hitta konung.
Bikki mælti: "Það samir, herra, að vita hvað títt er um, þótt vant sé upp að bera, en það er um vélar þær er sonur þinn hefir fengið fulla ást Svanhildar og er hún hans frilla, og lát slíkt eigi óhegnt."
Mörg ill ráð hafði hann honum áður kennt þó að þetta biti fyrir of hans ráð ill. Konungur hlýddi hans mörgum vondum ráðum. Hann mælti, og mátti eigi stilla sig af reiði, að Randvé skyldi taka og á gálga festa. Og er hann var til leiddur gálgans þá tók hann hauk einn og plokkaði af honum allar fjaðrirnar og mælti að sýna skyldi föður hans.
Og er konungurinn sá, mælti hann: "Þar má nú sjá að honum þykir eg þann veg hniginn sæmdinni sem haukurinn fjöðrunum," - og biður hann taka af gálganum. Bikki hafði þar um vélt á meðan og var hann dauður.
Enn mælti Bikki: "Engum manni áttu verri að vera en Svanhildi. Lát hana deyja með skömm."
Konungur svarar: "Það ráð munum vér taka."
Síðan var hún bundin í borgarhliði og hleypt hestum að henni. En er hún brá í sundur augum þá þorðu eigi hestarnir að spora hana. Og er Bikki sá það mælti hann að belg skyldi draga á höfuð henni. Og svo var gert en síðan lét hún líf sitt.
41. Guðrún eggjaði sonu sína
Guðrún spyr nú líflát Svanhildar og mælti við sonu sína: "Hví sitjið þér svo kyrrir eða mælið gleðiorð þar sem Jörmunrekur drap systur ykkra og trað undir hestafótum með svívirðing? Og ekki hafið þið líkt skaplyndi Gunnari eða Högna. Hefna mundu þeir sinnar frændkonu."
Hamðir svarar: "Lítt lofaðir þú Gunnar og Högna þá er þeir drápu Sigurð og þú varst roðin í hans blóði, og illar voru þínar bræðrahefndir er þú drapst sonu þína. Og betur mættum vér allir saman drepa Jörmunrek konung og eigi munum vér standast frýjuorð svo hart sem vér erum eggjaðir."
Guðrún gekk hlæjandi og gaf þeim að drekka af stórum kerum og eftir það valdi hún þeim stórar brynjur og góðar og önnur herklæði.
Þá mælti Hamðir: "Hér munum vér skilja efsta sinni og spyrja muntu tíðindin og muntu þá erfi drekka eftir okkur og Svanhildi."
Eftir það fóru þeir.
En Guðrún gekk til skemmu harmi aukin og mælti: "Þremur mönnum var eg gift. Fyrst Sigurði Fáfnisbana og var hann svikinn og var það mér hinn mesti harmur. Síðan var eg gefin Atla konungi en svo var grimmt mitt hjarta við hann að eg drap sonu okkra í harmi. Síðan gekk eg á sjáinn og hóf mig að landi með bárum og var eg nú gefin þessum konungi. Síðan gifti eg Svanhildi af landi í brott með miklu fé og er mér það sárast minna harma er hún var troðin undir hrossafótum, eftir Sigurð. En það er mér grimmast er Gunnar var í ormgarð settur, en það harðast er úr Högna var hjarta skorið, og betur væri að Sigurður kæmi mér á móti og færi eg með honum. Hér situr nú eigi eftir sonur né dóttir mig að hugga. Minnstu nú, Sigurður, þess er við mæltum þá er við stigum á einn beð, að þú mundir mín vitja og úr helju bíða."
Og lýkur þar hennar harmtölur.
42. Víg Erps og fall Sörla og Hamðis
Það er nú að segja frá sonum Guðrúnar að hún hafði svo búið þeirra herklæði að þá bitu eigi járn og hún bað þá eigi skeðja grjóti né öðrum stórum hlutum og kvað þeim það að meini mundu verða ef eigi gerðu þeir svo.
Og er þeir voru komnir á leið, finna þeir Erp bróður sinn og spyrja hvað hann mundi veita þeim.
Hann svarar: "Slíkt sem hönd hendi eða fótur fæti."
Þeim þótti það ekki vera og drápu hann. Síðan fóru þeir leiðar sinnar og litla hríð áður Hamðir rataði og stakk niður hendi og mælti: "Erpur mun satt hafa sagt. Eg mundi falla nú ef eigi styddist eg við höndina."
Litlu síðar ratar Sörli og brást á fótinn og fékk staðist og mælti: "Falla mundi eg nú ef eigi styddi eg mig við báða fætur."
Kváðust þeir nú illa hafa gert við Erp bróður sinn. Fóru nú uns þeir komu til Jörmunreks konungs og gengu fyrir hann og veittu honum þegar tilræði. Hjó Hamðir af honum hendur báðar en Sörli fætur báða.
Þá mælti Hamðir: "Af mundi nú höfuðið ef Erpur lifði, bróðir okkar, er við vágum á leiðinni og sáum við það of síð, sem kveðið er:
Af væri nú höfuðið
ef Erpr lifði,
bróðir okkar hinn böðfrækni
er við á braut vágum."
Í því höfðu þeir af brugðið boði móður sinnar er þeir höfðu grjóti skatt. Nú sækja menn að þeim. En þeir vörðust vel og drengilega og urðu mörgum manni að skaða. Þá bitu eigi járn.
Þá kom að einn maður, hár og eldilegur með eitt auga og mælti: "Eigi eruð þér vísir menn er þér kunnið eigi þeim mönnum bana að veita."
Konungurinn svarar: "Gef oss ráð til ef þú kannt."
Hann mælti: "Þér skuluð berja þá grjóti í hel."
Svo var og gert og þá flugu úr öllum áttum steinar að þeim og varð þeim það að aldurlagi.